Norska lögreglan hefur fundið lík í ánni Glommu sem hún telur vera jarðneskar leifar hins sænska Jerrys Mikaels Lemmetty sem saknað hefur verið síðan í fyrrahaust og áköf leit verið gerð að í og umhverfis norska bæinn Kongsvinger þar sem síðast spurðist til hans.
Hefur lögregla staðfest líkfund í Glommu við norska ríkisútvarpið NRK.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/08/18/leita_svians_i_glommu/
„Við höfum ástæðu til að ætla að líkið sé af Jerry Lemmetty sem saknað hefur verið síðan í nóvember í fyrra,“ segir Henning Klauseie rannsóknarlögreglumaður við fjölmiðilinn og bætir því við að lögreglu hafi um langt skeið grunað að andlát Svíans hafi borið að með voveiflegum hætti, honum hafi verið styttur aldur.
„Hinn látni hefur verið sendur til Óslóar þar sem hann verður krufinn og kennsl borin á hann,“ segir Klauseie enn fremur og útilokar ekki að nokkurn tíma muni taka að fá svar við þeirri spurningu.