þri. 19. ágú. 2025 12:00
Halla segir húsnæðisvandann fara vaxandi. Byggingaraðilum sé gert erfitt fyrir að byggja og fólki gert örðugt að kaupa fasteignir.
Nái stjórn á húsnæðismarkaðnum

Halla Gunnarsdóttir, formaður stéttarfélagsins VR, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í síðustu viku undir yfirskriftinni „Háir stýrivextir byggja ekki hús“ að áframhaldandi „hávaxtastefna“ Seðlabankans muni auka á verðbólgu til lengra tíma með því að koma í veg fyrir nauðsynlega húsnæðisuppbyggingu. Hún segir að húsnæðisvandinn hafi farið versnandi, íbúðum í byggingu hafi fækkað umtalsvert á meðan neyð fólks aukist. Byggingaraðilum sé gert erfitt fyrir að byggja og fólki gert örðugt að kaupa fasteignir.

Hvetur hún Seðlabankann til að hugsa út fyrir kassann og horfast í augu við kerfislæga verðbólguhvata í íslensku atvinnulífi. Þeir séu húsnæðismarkaðurinn, ásamt gróðadrifnum verðhækkunum, eins og Halla orðar það í grein sinni.

Ekki góð aðferð

Spurð nánar út í hvað hún vilji að verði gert segir hún að Seðlabankinn verði að endurskoða stýrivaxtastefnu sína. „Ef maður gerir aftur og aftur það sama án árangurs þá er það ekki góð aðferð,“ segir Halla í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að öll spjót þurfi nú að standa á stjórnvöldum til að ná stjórn á húsnæðismarkaðnum. „En auðvitað liggur boltinn hjá sveitarfélögunum sem þurfa að skipuleggja fleiri byggingarlóðir.“

Halla vill þó sjá aðgerðir frá ríkisstjórninni í þessum efnum. „Yfirvöld þurfa að skapa yfirsýn og langtímastefnu. Stjórnvöld hafa mörg stýritæki og geta m.a. beitt hvötum. Það er ekki hægt að skilja sveitarfélögin ein eftir hvert í sínu horni að finna út úr þessu. Þau eru ekki að mæta þörfinni fyrir lóðir og uppbyggingu.“

Spurð nánar út í hvernig yfirvöld geta stigið inn í til að fá sveitarfélögin til að fjölga byggingarhæfum lóðum segir Halla að þau hafi ýmis tæki. „Þau geta a.m.k. ekki haldið að sér höndum. Stjórnvöld bera ábyrgð á húsnæðismálunum. Þetta liggur ekki bara hjá sveitarfélögunum. Þau geta notað hvata og valdboð til að hreyfa við málinu. Það er ekki nóg að gerast. Það má ekki bíða eftir að vandinn verði stærri. Yfirvöld geta beitt sér og eiga að gera það. Til dæmis má skoða hagstæðari fjármögnun og aðstoð við innviðauppbyggingu en í öllu falli þarf að finna út hvað þarf til að sveitarfélögin geti fjölgað lóðum.“

Varðandi verðbólguna segir Halla að fyrirtæki hafi hækkað verð á sama tíma og þau áttu að halda að sér höndum eins og samið var um í síðustu kjarasamningum. Þá hafi sveitarfélög ekki staðið fyllilega við það sem samið var um.

Gróðabólga á landinu

Hún segir ýmsa græða á háum stýrivöxtum. „Bankarnir græða og þeir sem eiga fjármagn sömuleiðis. Sumir líta líka á verðbólgu sem gott tækifæri til að hækka verð því að neytendur missa kostnaðarvitund í svona ástandi. Gögn sýna að fyrirtæki eins og Hagar og Festi eru að auka við gróða sinn á verðbólgutímum á sama tíma og launafólk samdi um litlar launahækkanir í kjarasamningum.“

Halla segir að þarna sé á ferðinni fyrirbæri sem þekkt er alþjóðlega sem gróðabólga (e. greedflation).

„Við sjáum merki um þetta hér á landi. Til dæmis, eins og ég nefni í grein minni, hafa íslenskir sælgætisframleiðendur hækkað verð bæði á súkkulaði og hlaupi vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði á kakói.“

til baka