Svissneski úraframleiðandinn Swatch hefur beðist afsökunar og fjarlægt auglýsingu í Kína þar sem fyrirsæta sást toga í augnkrókana á sér. Myndin vakti hörð viðbrögð og ásakanir um kynþáttafordóma.
Fréttaveitan AFP bendir á að Swatch hafi um helgina birt yfirlýsingu á Instagram og kínverska samfélagsmiðlinum Weibo þar sem fyrirtækið viðurkenni mistök sín og segi að auglýsingin hafi verið fjarlægð.
„Við biðjumst einlæglega afsökunar á þeirri vanlíðan eða misskilningi sem þetta kann að hafa valdið,“ sagði í yfirlýsingunni.
Viðbrögðin við auglýsingunni koma á slæmum tíma fyrir framleiðandann því að Kína er einn stærsti markaður Swatch, en líkt og mörg önnur vestræn merki hefur fyrirtækið átt í erfiðleikum þar í landi þar sem hagvöxtur í Kína hefur dregist saman og neytendur snúið sér að ódýrari og oft innlendum vörum.
Í júlí greindi Swatch frá 11,2% samdrætti í tekjum á fyrri helmingi ársins og sagði það einkum vegna minni sölu í Kína.