Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman á morgun, 20. ágúst, og kynnir næstu vaxtaákvörðun bankans. Nefndin hefur lækkað stýrivexti á síðustu fimm fundum. Stýrivextir standa nú í 7,50% og raunstýrivextir í 3,5%, miðað við liðna verðbólgu.
Í nýjustu Hagsjá Landsbankans spáir greiningardeild bankans því að nefndin geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi vöxtum óbreyttum. Bankinn bendir á að verðbólga hafi verið þrálát og virðist föst í kringum 4%.
Í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar kom fram að ekki væru forsendur til að slaka á raunvaxtastiginu og að frekari vaxtalækkun væri háð því að verðbólga færðist nær 2,5% markmiði Seðlabankans. Landsbankinn telur ólíklegt að nefndin túlki núverandi þróun sem merki um að verðbólga sé á undanhaldi.
Verðbólguvæntingar eru enn háar og hafa lítillega aukist samkvæmt nýjustu könnun markaðsaðila. Samkvæmt Hagsjá Landsbankans gera markaðsaðilar nú ráð fyrir 0,4 prósentustiga hærri verðbólgu á 3. og 4. ársfjórðungi en í maí.
Eftirspurn í hagkerfinu er enn mikil. Kaupmáttur hefur aukist, kortavelta er í vexti og utanlandsferðum fjölgar. Þrátt fyrir aukna neyslu safnast innlán áfram upp og yfirdráttur eykst ekki. Íbúðamarkaðurinn sýnir einnig eitthvert líf, þótt verðhækkanir séu hægari en áður. Atvinnuleysi hefur aukist lítillega, en ekkert bendir til þess að háir vextir hafi haft veruleg neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn.
Greiningardeild Landsbankans telur að hagkerfið þoli vaxtastigið vel og að fátt bendi til þess að Seðlabankinn hafi gengið of langt í að kæla efnahagslífið. Því er líklegt að peningastefnunefnd haldi vöxtum óbreyttum á fundi sínum á morgun.