Tveir leikmenn léku sinn 100. leik í efstu deild karla í fótbolta þegar 19. umferðin var leikin á sunnudaginn og í gærkvöld.
Þórður Gunnar Hafþórsson úr Aftureldingu lék sinn 100. leik og skoraði eitt marka liðsins gegn KA í jafntefli liðanna, 3:3. Þórður lék 82 leiki fyrir Fylki í deildinni og hefur síðan leiki 18 leiki fyrir nýliða Aftureldingar í deildinni í ár.
Orri Hrafn Kjartansson úr KR lék sinn 100. leik í gærkvöld þegar KR-ingar unnu Fram 1:0 í Úlfarsárdal. Orri á að baki 63 leiki fyrir Val, 35 fyrir Fylki og nú tvo leiki fyrir KR-inga en hann kom til liðs við þá fyrr í þessum mánuði.
Guðjón Ernir Hrafnkelsson úr KA skoraði langþráð mark þegar Akureyrarliðið gerði jafntefli við Aftureldingu. Það var hans fyrsta mark í deildinni í 64 leikjum með KA og ÍBV.
Sigurður Bjartur Hallsson lék sinn 50. leik í röð í deildinni með FH þegar liðið vann magnaðan sigur á Breiðabliki, 5:4, á sunnudagskvöldið. Aðeins tveir leikmenn sem nú leika í deildinni hafa spilað lengur án þess að missa úr leik, Patrick Pedersen úr Val og Anton Ari Einarsson úr Breiðabliki.
Sigurður Bjartur skoraði fimmta mark FH í leiknum og hefur nú skorað sjö mörk í síðustu fimm leikjum Hafnarfjarðarliðsins. Hann er kominn í baráttuna um efstu sætin í markakóngskeppni deildarinnar. Baráttan stendur reyndar um annað og þriðja sætið en þessir eru efstir:
18 Patrick Pedersen, Val
10 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
9 Andri Rúnar Bjarnason, Stjörnunni
9 Sigurður Bjartur Hallsson, FH
9 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
9 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram
8 Aron Sigurðarson, KR
8 Tobias Thomsen, Breiðabliki
7 Benjamin Stokke, Aftureldingu
7 Örvar Eggertsson, Stjörnunni
6 Björn Daníel Sverrisson, FH
6 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA
6 Hrannar Snær Magnússon, Aftureldingu
6 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
6 Viktor Jónsson, ÍA