Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að herða þurfi viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi ef Vladimír Pútín Rússlandsforseti sýnir ekki vilja til að gera friðarsamkomulag við Úkraínu.
Macron var á meðal nokkurra Evrópuleiðtoga sem funduðu með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag.
Fundinum lauk fyrr í kvöld og hefur Trump greint frá því að undirbúningur sé hafinn að friðarfundi milli Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Að þeim fundi loknum muni svo hefjast þríhliða viðræður um friðarsamkomulag sem Trump komi þá einnig að.
Trump undirbýr fund milli Selenskís og Pútíns
Þá upplýsti Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, að Trump og Pútín hefðu rætt símleiðis í dag þar sem Pútín féllst á að funda með Selenskí innan tveggja vikna.
„Trump forseti telur að hægt sé að ná samkomulagi og er sannfærður um að Pútín vilji einnig friðarsamkomulag,“ sagði Macron við fréttamenn í Washington fyrir stuttu.
„En ef þetta ferli endar með neitun erum við jafnframt reiðubúin að segja að við þurfum að auka þvinganirnar.“