Rúnar Kristinsson þjálfari Fram var eðlilega ekki ánægður með tap á heimavelli gegn KR í bestu deild karla í kvöld. Spurður að því hvað hafi orðið Fram að falli og ekki borið meira úr bítum í leiknum sagði Rúnar þetta:
„Það var ein aukaspyrna sem KR fékk. En ef þetta var raunverulega aukaspyrna þá var þetta mjög soft. Og miðað við hvað var búið að ganga á í leiknum fram að þessu þá var þetta rosalega harður dómur fyrir ekki meira.
En við eigum að gera betur og fylgja betur eftir og ekki láta KR-inga komast á undan okkur í að hreinsa frá og það kostaði þetta mark.
Mér fannst við vera aðeins ólíkir okkur í fyrri hálfleik. Við vorum alltof fljótir að reyna finna úrslitasendinguna og KR-ingar náðu alltaf að koma í veg fyrir það. Ég hefði viljað sjá aðeins meira spil áður en við reyndum að brjótast í gegn því við vissum að þeir myndu spila hátt með varnarlínuna eins og þeir gerðu.
En í síðari hálfleik vorum við frábærir og pressuðum KR-inga alveg niður að endalínu. Þeir áttu varla skot á mark hérna í seinni hálfleik. Við fengum fullt af góðum færum þar sem okkur vantaði bara einhvern til að henda sér á boltann og koma honum yfir línuna.
Það að við skorum ekki í dag er að verða okkur að falli og við erum búnir að vera að brenna alltof mikið af dauðafærum í undanförnum leikjum en ég er ánægður með mitt lið, sérstaklega hér í síðari hálfleik og ég held að KR-ingar hafi aldrei þurft að verjast svona mikið í einum leik í deildinni í sumar.“
KR spilar 11 manna varnarleik löngum stundum í síðari hálfleik. Það er eitthvað sem fer gegn þeim línum sem Óskar Hrafn hefur lagt í samtölum við fjölmiðla í sumar þar sem hann hefur notað orðatiltæki eins og að brenna skipin og þess háttar. Kom það ykkur á óvart að nú virðist hann vera farinn að byggja skipin aftur upp á nýtt?
„Nei, alls ekki. Ég sá það t.d. á móti Aftureldingu í síðasta leik hjá þeim að þeir lögðust dýpra og eru greinilega að reyna ná í úrslit, þeir þurfa úrslit. Það er ekkert út á það að setja og ég átti svo sem von á því að ef við næðum að halda boltanum aðeins betur en í fyrri hálfleik þá myndum við ná að pressa þá dýpra niður, og það gekk eftir. Við vorum líka miklu agressífari í allri pressu og þvinguðum þá í langa bolta sem hræddi þá eitthvað.
En eðlilegt er að þeir fari í þessa leikaðferð þegar þeir eru að leiða leikinn og vilja halda fengnum hlut. Þeir eru með hættulega menn í skyndisóknir og geta spilað flottan bolta. Við þurftum að taka sénsinn á að það myndi ekki heppnast hjá þeim og það gekk en við náðum samt ekki að skora.“
En það vantaði sáralítið upp á hjá Fram í kvöld, ekki satt?
„Það vantaði mjög lítið en það bara dugar ekki til. Við þurfum að vera grimmari fyrir framan markið og vera frekari á boltann. Við þurfum að ráðast á þau svæði sem við erum að senda boltann í. Það voru allir að reyna sitt allra besta og því miður gekk það ekki í dag.
Við þurfum bara að taka það góða með okkur út úr þessum leik og reyna byggja ofan á það fyrir næsta leik.“
Nú er staðan þannig að þið eruð dottnir í neðri hlutann í 7. sæti á meðan FH fer upp í 6. sætið. Megum við eiga von á því að þessi lið muni spila úrslitaleik um hvort liðið endi í efri hlutanum í lokaumferðinni fyrir skiptingu?
„Ég ætla að vona að við þurfum ekki að fara í Kaplakrikann og heyja baráttu við FH um það. En það gæti vel verið en við og öll lið frá 5. sætinu og alveg niður í það 11. eru enn þá í séns. Þetta er ótrúlega jöfn deild, 9 stig í pottinum og þrír leikir. Mitt mat er að 4-5 stig í viðbót dugi liðum til að festa sig í efri hlutanum,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is.