mán. 18. ágú. 2025 21:08
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands, Alexander Stubb, forseti Finnlands, Volodimír Selenskí Úkraínuforseti, Donald Trump Bandaríkjaforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu, Friedrich Merz kanslari Þýskalands og Mark Rutte framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins fyrr í dag.
Hvað sögðu Evrópuleiðtogarnir?

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segir að öryggistryggingar í þágu Úkraínu sem og þríhliða viðræður milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta yrði sögulegt skref fram á við í deilu Rússlands og Úkraínu.

Þetta er á meðal þess sem kom frá á fundi Evrópuleiðtoga með Trump í Hvíta húsinu í dag. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Á fundinum sagði Selenskí að viðræður sínar og Trumps hefðu verið „uppbyggilegar“. Rætt hafi verið um viðkvæm mál, þar á meðal öryggistryggingar.

Pútín hlynntur verndartryggingu fyrir Úkraínu

Átti hið besta samtal við Trump

Macron vill fjórhliða viðræður

Þýski kanslarinn Friedrich Merz lagði áherslu á að koma þyrfti á vopnahlé milli Rússlands og Úkraínu áður en næsti leiðtogafundur um stríðið yrði haldinn. Trump sagði fyrr í dag að vopnahlé væri ekki nauðsynlegt og hefur hann áður sagt að frekar ætti að fara beint í að gera friðarsamkomulag.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti tók undir með Merz um að koma ætti á vopnahléi. Jafnframt kallaði hann eftir því að fjórhliða viðræður yrðu haldnar þar sem leiðtogar Evrópu myndu einnig koma að samtalinu. Sagði Frakklandsforsetinn að það væri ekki bara öryggi Úkraínu sem væri til umræðu heldur einnig öryggi allrar Evrópu.

Ítalski forsætisráðherrann, Giorgia Meloni, sagði að eitt mikilvægasta atriðið væri að atburður sem þessi myndi ekki endurtaka sig.

Fundinn sátu einnig framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins Matt Rutte, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, og finnski forsetinn, Alexander Stubb.

Sagði Rutte að bandamenn Úkraínu ættu að beita sér fyrir því að Rússland myndi láta af árásum sínum á innviði Úkraínu.

Von der Leyen sagði að endurheimt rændra barna úr Úkraínu ætti að vera efst á dagskrá.

Fundur leiðtogana hélt svo áfram fyrir luktum dyrum en talið er að honum sé nú lokið. 

til baka