Fram tók á móti KR í 19. umferð bestu deildar karla í fótbolta í kvöld og lauk leiknum með 1:0-sigri KR.
Eftir leikinn er Fram í 7. sæti deildarinnar með 25 stig, aðeins fjórum stigum frá fallsæti en KR lyftir sér upp í 9. sætið og er með 23 stig líkt og KA en með betri markatölu.
Leikurinn fór afar rólega af stað og í raun var frá litlu að segja fyrr en á 32. mínútu þegar KR-ingar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað rétt utan teigs.
Spyrnuna tók Matthias Præst Nielsen og varði Viktor Freyr Sigurðsson skot hans en náði ekki að halda boltanum og fór hann út í teig. Þar var mættur Galdur Guðmundsson til að fylgja skoti Præst eftir og skoraði hann af öryggi. Staðan var 1:0 fyrir KR.
Lítið annað gerðist fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Freyr Sigurðsson gaf boltann fyrir markið og þar mætti Jakob Byström og skallaði boltann fram hjá markinu í dauðafæri.
Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir KR.
Það var svipuð deyfð yfir seinni hálfleik og þeim fyrri. Leikmenn Fram sóttu þó talsvert og fengu ágætis færi til að jafna leikinn. Frederico Bello Saraiva átti hörkuskot að marki KR á 62. mínútu en Halldór Snær Georgsson varði vel í marki KR.
Eftir því sem líða tók á seinni hálfleik jókst sóknarþungi Fram og löngum stundum voru KR-ingar að spila 11 manna vörn sem er talsvert frábrugðið því uppleggi sem Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, hefur sagt vera ófrávíkjanlegt í leikskipulagi KR.
Fram reyndi allt til að ná að skora jöfnunarmarkið en allt kom fyrir ekki og fóru KR-ingar með öll stigin heim í Vesturbæinn.