þri. 19. ágú. 2025 07:00
Hjörtur J. Guðmundsson.
Hvers vegna er Ísland ekki í forgangi?

Aðsend grein úr Morgunblaðinu

Haustið 2009 settu stjórnvöld í Kína fríverslunarviðræður við Ísland einhliða á ís. Ástæðan var einkum sú ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sumarið áður að senda inn umsókn um inngöngu í Evrópusambandið. Viðræðurnar voru síðan teknar upp aftur árið 2012 eftir að utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson hafði loks horfst í augu við þá staðreynd að umsóknin væri dauðadæmd og upplýst kínverska ráðamenn um það undir rós.

Hefði Ísland gengið í Evrópusambandið hefði þurft að segja upp öllum viðskiptasamningum landsins við ríki utan sambandsins. Með inngöngu í Evrópusambandið afsala ríki sér þannig meðal annars valdinu til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga til sambandsins og eru þess í stað einungis undir sameiginlega viðskiptastefnu þess sett. Kínverskum stjórnvöldum þótti því lítill tilgangur í því að ræða um viðskiptasamning við ríki sem stefndi að inngöngu í Evrópusambandið.

Hugmyndin hjá Össuri var að gera inngöngu í Evrópusambandið að pólitískum minnisvarða um hann sjálfan, rétt eins og fyrirmyndin hans, Jón Baldvin Hannibalsson, hafði reist sér minnisvarða með því að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og beitt sér fyrir aðild Íslands að EES-samningnum. Þegar Össuri varð hins vegar endanlega ljóst að ekki yrði af inngöngunni dustaði hann rykið af fríverslunarviðræðunum við Kína í von um að geta í staðinn eignað sér þær.

Ekki eins aðkallandi að ræða við Ísland

Fyrir helgi hafði mbl.is eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanni Viðreisnar, að Bandaríkin væru að forgangsraða ríkjum, í viðræðum um þarlenda tolla, þar sem meiri hagsmunir væru í húfi en í tilfelli Íslands. Vafalítið hefur hins vegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja inngöngu í Evrópusambandið á dagskrá með fyrirhuguðu þjóðaratkvæði, auk samkomulaga um varnarmál og aðlögun að utanríkisstefnu sambandsins, þar umtalsverð áhrif.

Með öðrum orðum er ekki ósennilegt að stjórnvöld í Bandaríkjunum telji ekki eins aðkallandi að ræða við íslenska ráðamenn um tollasamning þegar fyrir liggur að ríkisstjórnin hafi sett stefnuna á inngöngu í Evrópusambandið sem myndi þýða að mögulegum samningi yrði sagt upp kæmi til hennar. Það eykur að sama skapi eðli málsins samkvæmt líkurnar á því að Ísland kunni að vera sett undir sama hatt og sambandið í þessum efnum af ráðamönnum í Washington.

Við þetta bætast síðan miklar efasemdir um það hve vel ríkisstjórnin hafi sinnt hagsmunagæslunni gagnvart Bandaríkjunum. Þá einkum eðli málsins samkvæmt utanríkisráðuneytið með Þorgerði í broddi fylkingar. Fátt bendir til þess að mikil áhersla hafi verið á hagsmunagæsluna í reynd af hálfu utanríkisráðherra. Þrátt fyrir yfirlýsingar hennar um annað sem virðast ekki hafa verið mikið annað en það. Fremur orð en gerðir. Allavega engan veginn það sem þurft hefur til.

Framganga ESB hefur verið mun verri

Flest bendir þannig til þess að hagsmunagæslan hafi verið í skötulíki þó vitanlega þyki nauðsynlegt að reyna að láta líta úr fyrir annað á yfirborðinu. Óhjákvæmilegt er að hafa í huga að einkum Viðreisn hefur ekki pólitíska hagsmuni af því að vel takist til í viðræðum við bandarísk stjórnvöld enda náin tengsl við Bandaríkin, einkum á sviði efnahags- og varnarmála, verið að mati Evrópusambandssinna ein helsta hindrunin í vegi þess að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Hins vegar hafa hótanir Evrópusambandsins um að leggja tolla á Ísland flækt málin. Ekki síst þar sem framkoma sambandsins er í reynd mun verri. Þannig hækkuðu bandarísk stjórnvöld tolla á Ísland á þeim forsendum að viðskiptajöfnuður ríkjanna hallaði á Bandaríkjamenn samkvæmt þeim tölum sem ráðamenn í Washington horfa til á meðan Evrópusambandið hyggst hækka tolla þvert á EES-samninginn og án þess að Ísland hafi gert nokkuð sem kallað gæti á það.

Fyrir vikið er ljóst að áhersla ríkisstjórnarinnar hefur fyrst og fremst og nær eingöngu verið á Evrópusambandið. Vert er að hafa í huga í þessum efnum að sambandið hefur ítrekað hótað okkur Íslendingum í gegnum tíðina. Til að mynda bæði í Icesave-málinu og makríldeilunni á sínum tíma. Raunar hefur enginn hótað okkur í seinni tíð í sama mæli og ráðamenn í Brussel. Hagsmunir okkar Íslendinga hafa enda ítrekað verið á skjön við hagsmuni Evrópusambandsins.

Framganga Evrópusambandsins hefur raunar verið slík að jafnvel Þorgerður hefur ekki séð sér annað fært í stöðunni en að taka undir það aðspurð að hótanir sambandsins um tolla á Ísland fari gegn EES-samningnum. Sama hefur átt við um Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar. Ráðamenn í Brussel hafa þar vísað til ákvæðis í samningnum sem hugsað er sem neyðarúrræði og íslensk stjórnvöld gripu til í kjölfar bankahrunsins hér á landi.

Hins vegar er ekkert neyðarástand fyrir hendi hjá Evrópusambandinu sem réttlætt getur beitingu ákvæðisins. Telji sambandið rétt að beita því við núverandi aðstæður vaknar sú spurning hvers konar fordæmi það setji og hvenær vænta megi þess að því verði beitt næst. Miðað við tilefnið nú gæti sambandið framvegis gripið reglulega til þess. Eins og Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt felst í þessu grundvallarbreyting á EES-samningnum.

Við höfum áður staðið frammi fyrir túlkun Evrópusambandsins á lögum og reglum eftir hentugleika. Til að mynda í Icesave-málinu þegar það krafðist þess að við samþykktum að bera ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands þvert á ákvæði tilskipunar þess sjálfs um innistæðutryggingar sem bannaði ríkisábyrgð. Það átti einfaldlega að fórna okkur sem hefði tekist hefðum við verið innan sambandsins. Sem betur fer gátum við varist því í krafti fullveldisins.

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherslu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál.

til baka