Matvii Levchenko og Ásgerður Sara Hálfdanardóttir báru sigur úr býtum þegar fyrsta alþjóðlega píanókeppni WPTA Iceland fór fram í Salnum í Kópavogi um helgina.
Matvii, sem er nemandi dr. Nínu Margrétar Grímsdóttur í Tónskóla Sigursveins, sigraði í
flokki 14 ára og yngri en Ásgerður Sara Hálfdanardóttir, sem er nemandi dr. Nínu Margrétar í
Tónlistarskóla Kópavogs, sigraði í flokki 19 ára og yngri.
Keppnin var hluti píanóhátíðar sem haldin var í samstarfi við Opna listaháskólann og Félag íslenskra píanóleikara.
Sigurvegarar í flokki I – 14 ára og yngri:
- 1. verðlaun hlaut Matvii Levchenko (nemandi dr. Nínu Margrétar Grímsdóttur í Tónskóla Sigursveins)
- 2. verðlaun hlaut Sól Björnsdóttir (nemandi Kristins Arnar Kristinssonar í Allegro Suzuki skólanum)
- 3. verðlaun hlaut Alex Garðar Paulsson (nemandi Kristins Arnar Kristinssonar í Allegro Suzuki skólanum)
Sigurvegarar í flokki II – 19 ára og yngri:
- 1. verðlaun - Ásgerður Sara Hálfdanardóttir (nemandi dr. Nínu Margrétar Grímsdóttur í Tónlistarskóla Kópavogs)
- 2. verðlaun – Vasyl Zaviriukha (nemandi dr. Nínu Margrétar Grímsdóttur í Tónskóla Sigursveins)
- 3. verðlaun – Chadman Naimi (nemandi dr. Nínu Margrétar Grímsdóttur í Tónskóla Sigursveins)
„Markmið WPTA Iceland með stofnun alþjóðlegrar píanókeppni hérlendis eru að skapa faglegan vettvang fyrir unga og efnilega píanóleikara til þess að efla sig í túlkun og tækni píanótónlistar í alþjóðlegum samanburði í sínum aldurshóp. Þessi markmið eru samræmd við önnur fagfélög WPTA – World Piano Teachers Association – sem eru starfandi um allan heim. Frábærar aðstæður í Salnum Kópavogi þar sem er nýr Steinway flygill og aðild að AAF – Alink-Argerich Foundation – sem eru alþjóðleg samtök virtustu píanókeppna heims eins og t.d Van Cliburn og Rubinstein keppnirnar, gefa keppninni alþjóðlegt vægi sem og þátttaka virtra innlendra og erlendra dómara,“ segir í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum keppninnar.
Dómarar keppninnar í ár voru: Albert Mamriev, Mathias Halvorsen, Liam Kaplan, Edda Erlendsdóttir, Peter Máté og Erna Vala Arnardóttir.
WPTA Iceland hyggst halda alþjóðlega píanókeppni árlega og verða dagsetningar og umsóknarfrestir fyrir árið 2026 kynntir á næstunni.