mán. 18. ágú. 2025 16:07
Málið þykir bæði alvarlegt og vandræðalegt.
Gleymdi trúnaðarskjölum á hóteli: Sakaður um að stofna þjóðaröryggi í hættu

Réttarhöld eru hafin í máli fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Svíþjóðar sem var ákærður fyrir að gleyma trúnaðarskjölum í ráðstefnusal á hóteli í Svíþjóð. Saksóknarar segja að hann hefði með þessu stofnað öryggi landsins í hættu. 

Ráðgjafinn fyrrverandi, Henrik Landerholm, sagði af sér í janúar vegna hneykslisins. Hann skildi skjölin eftir í ólæstum skáp á Gallofsta-hótelinu í mars 2023.

Fram kemur í ákærunni að hægt hafi verið að tengja hótelþernu, sem fann skjölin, við öfgahópa. 

Landerholm hefur lýst sig saklausan af ákæru um gáleysi með trúnaðarupplýsingar. Verði hann fundinn sekur þá getur það varðað sektum eða allt að eins árs fangelsi. 

Hefði ekki skaðað sænskt þjóðaröryggi

Hann hefur aftur á móti viðurkennt að hafa gleymt skjölunum í hótelherberginu sínu.

Lögmaður hans, Johan Eriksson, sagði við réttarhöldin að ekki væri vitað hvort einhver hefði séð innihaldið.

„Við höldum því fram, miðað við aðstæður, að upplýsingarnar hafi ekki verið afhjúpaðar,“ sagði Eriksson í dómsal og hélt því fram að upplýsingarnar hefðu ekki verið þess eðlis að þær gætu skaðað sænskt þjóðaröryggi, jafnvel þótt þær hefðu komið í ljós.

Landerholm sagði að atvikið á hótelinu hefði verið óafsakanlegt og óheppilegt. Það væri nú dómstólsins að ákveða hvort þetta væri glæpur.“

Stór hluti málsins á að fara fram fyrir luktum dyrum vegna viðkvæms eðlis upplýsinganna.

Ekki það fyrsta sem hann gleymir

Í kjölfar hneykslismálsins á hótelinu greindu sænskir fjölmiðlar frá því að Landerholm hefði einnig gleymt farsímanum sínum í ungverska sendiráðinu í desember 2022, skömmu eftir að hann var skipaður ráðgjafi.

Hann skildi einnig eftir minnisbók eftir fjölmiðlaviðtal í janúar 2023.

Hinn 62 ára gamli Landerholm hefur áður starfað sem sendiherra, forstjóri sænsku Sálrænu varnarmálastofnunarinnar, rektor sænska Varnarmálaháskólans og formaður varnarmálanefndar þingsins.

til baka