mán. 18. ágú. 2025 13:54
Úrvinda heilbrigðisstarfsmaður sést hvílast á sjúkrahúsi í Khan Yunis, sem er á suðurhluta Gasa.
Norrænu læknafélögin tjá sig um Gasa

Norrænu læknafélögin hafa sent frá sér yfirlýsingu um ástandið á Gasa. Þar vara þau við yfirvofandi hruni á heilbrigðiskerfinu og krefjast tafarlausra aðgerða stjórnvalda. Þá er lögð áhersla á vernd sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks.

Á bak við yfirlýsinguna standa læknafélög í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og á Íslandi. Tekið er fram að yfirlýsingin hafi einnig verið send forsætisráðherrum, utanríkisráðherrum og heilbrigðisráðherrum allra Norðurlandanna.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, er á meðal þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna. 

Yfirlýsingin, sem er á ensku, er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:

„Við, læknasamtök Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, lýsum yfir miklum áhyggjum af yfirstandandi og vaxandi mannúðarkreppu á Gasa.

Sem heilbrigðisstarfsmenn höfum við alvarlegar áhyggjur af fjölda óbreyttra borgara sem hafa fallið og endurteknum árásum á heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsfólk. Eyðilegging heilbrigðiskerfis Gasa, ásamt áframhaldandi hömlum á mannúðaraðstoð – þar með talið nauðsynlegum lækningavörum – hefur skilið fjölda fólks eftir án aðgangs að grundvallar- og lífsnauðsynlegri umönnun. Sjúkrahús hafa verið gerð óstarfhæf, heilbrigðisstarfsfólk vinnur við ómögulegar aðstæður og börnum og öðrum viðkvæmum hópum er neitað um bráðnauðsynlega meðferð. Hrun heilbrigðiskerfisins á Gasa er læknisfræðilegt neyðarástand sem krefst tafarlausra og samræmdra alþjóðlegra viðbragða.

Við hvetjum norrænu ríkisstjórnirnar til að grípa til raunhæfra aðgerða til að létta á þessari krísu, þar á meðal:

• Að þrýsta á um ráðstafanir til að tryggja að allir sjúklingar á Gasa fái nauðsynlega læknismeðferð — með því að tryggja meðferð á svæðinu og auðvelda læknisfræðilegan brottflutning til útlanda þegar þörf krefur.

• Að styðja við afhendingu nauðsynlegra lækningavara og mannúðaraðstoðar í gegnum varanlegar mannúðarleiðir sem njóta verndar.

• Að stuðla að því að alþjóðlegum mannúðarlögum sé fylgt og að heilbrigðisstarfsfólk, -stofnanir og -flutningar njóti verndar.

• Að beita diplómatískum aðgerðum til að koma á varanlegu vopnahléi

Við ítrekum einnig meginregluna um hlutleysi í læknisfræði og hvetjum alla aðila til að virða réttindi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, óháð pólitísku eða hernaðarlegu samhengi.

Norrænu læknasamtökin eru reiðubúin að styðja við þessar aðgerðir og vinna með viðeigandi innlendum og alþjóðlegum aðilum til að tryggja aðgang að lífsnauðsynlegri umönnun.

Á stríðstímum verður hlutverk læknastéttarinnar að vera skýrt: að vernda líf og reisn – og að láta í sér heyra þegar þessi gildi eru í hættu.“

 

til baka