mán. 18. ágú. 2025 13:07
Sam­keppnis­eft­ir­litið hefur kom­ist að þeirri niður­stöðu að Lands­virkj­un hafi með al­var­leg­um hætti mis­notað markaðsráðandi stöðu sína.
Sekta Landsvirkjun um 1,4 milljarða

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að leggja 1,4 milljarða króna sekt á Landsvirkjun.

Fram kemur í tilkynningu að eftir ítarlega rannsókn hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun hafi með alvarlegum hætti misnotað markaðsráðandi stöðu sína með verðlagningu á raforku í útboðum Landsnets á árunum 2017 til 2021.

 

Gátu ekki selt orkuna nema með tapi

„Verðlagning Landsvirkjunar í umræddum útboðum gerði það að verkum að viðskiptavinir Landsvirkjunar, sem versluðu raforku af Landsvirkjun og tóku þátt í útboðum Landsnets í samkeppni við Landsvirkjun, gátu ekki selt raforkuna nema með tapi,“ segir í tilkynningunni. 

furða sig

Þá segir að háttsemi Landsvirkjunar hafi unnið gegn því að nýir og minni keppinautar á raforkumarkaði næðu fótfestu og gætu þannig aukið samkeppni fyrirtækjum og einstaklingum til hagsbóta.

 

Skiptir máli hvernig stór raforkufyrirtæki hagi sinni starfsemi

„Virk samkeppni á raforkumarkaði hefur úrslitaþýðingu fyrir samkeppnishæfni Íslands og hagsmuni þeirra sem hér búa. Ef rétt er á málum haldið getur virk samkeppni stuðlað að raforkuöryggi, flýtt fyrir orkuskiptum, hraðað öðrum nýjungum og tryggt okkur hagstætt raforkuverð til framtíðar litið.

Í þessu ljósi skiptir miklu máli hvernig stór og rótgróin raforkufyrirtæki, oftast í opinberri eigu, haga sinni starfsemi. Þessi ákvörðun fjallar um það,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í tilkynningunni. 

Ákvörðunina í heild sinni má lesa hér. 

til baka