mán. 18. ágú. 2025 13:55
Donald Trump ræðir við blaðamenn um borð í forsetaflugvélinni. Það kemur í ljós hvort hann fæst til að lækka tolla á Sviss en sumir greinendur telja útreikninga á vöruskiptahalla landanna á misskilningi byggða.
Úraframleiðendur ókyrrast

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 18. ágúst.

Það gæti komið sumum lesendum á óvart að Donald Trump þykir hafa nokkuð góðan smekk þegar kemur að armbandsúrum. Áhugamenn um fín svissnesk úr hafa lagst yfir ljósmyndir af forsetanum til að kortleggja safnið hans og hefur t.d. sést til Trumps með sérlega skemmtilegt spariúr úr Historiques-línu Vacheron Constantin, en um er að ræða endurgerð af úri frá sjöunda áratugnum.

Trump skartar líka oft Day-Date frá Rolex, sem kallað er „forsetaúrið“ í úraheiminum, en þetta tiltekna úr var m.a. í uppáhaldi hjá forverum hans; þeim Eisenhower, Kennedy og Johnson. Loks er vitað að Trump á Golden Ellipse frá Patek Philippe, sem sumum gæti þótt helst til fíngert úr fyrir svona hávaxinn og stóran mann en er fallegt úr engu að síður.

Úrin hans Trumps sem talin eru upp hér að ofan eru vitaskuld öll úr gulli.

Hins vegar sést Trump sjaldan með úrin sem hann hefur látið framleiða og selja undir eigin nafni og þeim sem hafa þróað með sér smekk fyrir svissneskum hágæðaúrum gæti þótt Trump-úrin helst til groddaleg. Þau kosta engin ósköp, eða á bilinu 500 til 1.200 dali, og deilt er um hvort kaupendur fái mikið fyrir peninginn.

Þá virðist á huldu hvar og hvernig Trump-úrin eru framleidd. Á síðasta ári lagðist CNN í töluverða rannsóknarvinnu til að komast til botns í því og komst að þeirri niðurstöðu að úrin væru alltént ekki svissnesk að uppruna og að þeim væri mögulega púslað saman úr ódýrum íhlutum frá Kína.

Skekktu gullviðskipti vöruskiptahallann?

Svissneskir úraframleiðendur eru á nálum eftir að Trump ákvað að leggja 39% toll á svissneskar vörur á meðan hann lét nægja að setja 15% toll á innflutning frá ESB. Svissnesk stjórnvöld hafa gefið það skýrt til kynna að þau vilji leggja allt í sölurnar til að semja um hagstæðari viðskiptakjör og þá hafa greinendur bent á að óvenjumikil viðskipti með gull hafi hugsanlega skekkt útreikninga Hvíta hússins á viðskiptahalla Bandaríkjanna og Sviss.

Þannig bendir Guardian á það í nýlegri grein að óvissa í efnahagsmálum hafi leitt til þess að eftirspurn eftir gulli tók kipp á fyrsta fjórðungi þessa árs og streymdi gull frá öllum heimshornum – en þó einkum frá London – yfir til Bandaríkjanna með viðkomu í Sviss. Ástæðan fyrir því að viðskipti með gull fara oft í gegnum Sviss er að þar eru stangirnar bræddar niður og steyptar í þá stærð sem kaupandinn vill fá, vegna þess að á sumum markaðssvæðum er venjan að gullstangir séu vegnar í únsum en annars staðar í kílógrömmum.

Í opinberum inn- og útflutningstölum kom þetta fram sem mikil og skyndileg aukning í innflutningi frá Sviss til Bandaríkjanna. Að sögn DW sendi Sviss 36 milljarða dala virði af gulli yfir til Bandaríkjanna á fyrsta fjórðungi þessa árs en til samanburðar hefur Hvíta húsið vísað til u.þ.b. 40 milljarða dala vöruskiptahalla sem réttlætingu fyrir háu tollunum.

Mikilvægasta markaðssvæðið

Ef ekki tekst að semja um lægri tolla gætu svissneskir úraframleiðendur verið í vanda staddir því Bandaríkin eru langstærsti markaður heims fyrir svissnesk úr. Samkvæmt tölum frá Samtökum svissneskra úraframleiðenda (Fédération de l'industrie horlogère suisse, FH) fluttu Bandaríkin inn svissnesk úr fyrir nærri 4,4 milljarða svissneskra franka árið 2024 en til samanburðar námu útflutningstekjur svissneska úrageirans alls tæpum 26 milljörðum franka sama ár. Lætur því nærri að Bandaríkin ein og sér beri uppi u.þ.b. fimmtung svissneskrar úraframleiðslu.

Tollar Trumps auka á raunir svissneska úrageirans því þar hafa sölutölurnar verið á niðurleið, ekki síst vegna mikils samdráttar í Kína og Hong Kong. Líkt og Morgunblaðið hefur áður fjallað um virðast neytendur í þeim heimshluta ekki hafa jafnmikinn áhuga á lúxusvarningi og áður auk þess sem efnahagsleg óvissa fær fólk um allan heim til að slá því á frest að fjárfesta í dýrum úrum og öðrum lúxusvörum. Mælt í frönkum varð 2,8% samdráttur í útflutningi svissneskra úra árið 2024 á heimsvísu og mældist samdrátturinn t.d. nærri 26% í Kína og tæplega 19% í Hong Kong, næstum 21% í Taílandi og hartnær 15% í olíuríkinu Barein.

Að sögn FH hefur ekki komið til uppsagna hjá úraframleiðendum en margir þeirra hafa brugðist við samdrættinum með styttri vinnuviku. Óttast þeir sem til þekkja að greinin gæti þurft að ráðast í harkalegri aðhaldsaðgerðir ef salan heldur áfram að minnka.

Áhugavert verður að sjá hvort úrarisarnir í Genf reyni að taka á sig kostnaðinn af tollum Trumps ef ekki tekst að semja um lægri prósentutölu. Almennt er talið að álagning framleiðenda sé margföld á við það sem kostar að smíða hvert úr og því þyrftu hærri tollar ekki endilega að koma fram í langtum hærra verði hjá bandarískum seljendum. Mikil leynd hvílir yfir hvað það kostar í raun að framleiða svissnesk armbandsúr í hæsta gæðaflokki en sumar heimildir áætla að endanlegt söluverð sé iðulega fjórfalt til fimmfalt hærra en framleiðslukostnaðurinn og hafa margir framleiðendur hækkað verðið hjá sér nokkuð skarplega á undanförnum árum.

til baka