Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar var miður sín eftir 6:0-tap Santos á heimavelli gegn Vasco da Gama í brasilísku deildinni í gær.
Þetta var stærsta tap Neymars á ferlinum, sem var í tárum eftir leikinn.
„Ég skammast mín. Ég er mjög vonsvikinn með frammistöðu okkar og stuðningsmenn liðsins hafa rétt á að mótmæla, án þess að beita ofbeldi.
Ef þeir vilja blóta og móðga okkur þá eiga þeir rétt á því. Ef ég ætti að setja viðhorf okkar á vellinum í eitt orð þá væri það hræðilegt.
Ég hef aldrei upplifað neitt svona í lífi mínu. Tárin komu því ég var reiður. Því miður get ég ekki hjálpað á allan hátt.
Ég held að allir þurfi að fara heim og hugsa um hvað þeir vilji gera,“ sagði Neymar í viðtali í heimalandinu eftir tapið.
Santos er tveimur stigum frá fallsæti og stjóri liðsins, Cléber Xavier, var rekinn beint eftir leikinn.