mán. 18. ágú. 2025 14:32
Varðskipið Óðinn siglir einu sinni á ári en áhöfnin vill með því minnast látinna sjómanna víðs vegar um landið.
Sigla í minningu látinna sjómanna

Áhöfn varðskipsins Óðins sigldi í sumar til Ólafsvíkur þar sem haldin var minningarathöfn á Dyraflögunni á Víkinni til heiðurs tuttugu og einum sjómanni sem farist hafa á sjó frá árinu 1940. Flestir þeirra voru úr Ólafsvík en einnig nokkrir frá Hellissandi. Óðinsmenn vonast til þess að geta gert árlega siglingu að hefð

Fengu hlýjar móttökur í Ólafsvík

„Þetta er búið að brjótast um í okkur lengi,” segir Egill Þórðarson, loftskeytamaður Óðins. „Okkar verkefni er að reyna að halda skipinu lifandi og við reynum að heimsækja eina höfn á ári.” Með því segir hann að áhöfnin vilji minnast látinna sjómanna og jafnframt sýna fólki þetta sögulega skip, en Óðinn var byggður sem björgunar- og varðskip og gegndi því hlutverki prýðilega í 46 ár. „Við ákváðum að taka þátt í þessari minningarathöfn í ár og við fengum mjög hlýjar móttökur í Ólafsvík,” segir Egill og bætir við að hátt í 500 manns hafi komið um borð af því tilefni og skoðað skipið.

 

Undanfarin ár hefur áhöfn Óðins heimsótt eina höfn á sumri hverju. Fyrsta ferðin var farin til Grindavíkur árið 2022, næst var haldið til Vestmannaeyja árið 2023 í tengslum við 50 ára goslokahátíð, og í fyrra var siglt að Stafnesi á Reykjanesi þar sem minnst var þess þegar vitaskipið Hermóður fórst með tólf manna áhöfn. Guðni Th. Jóhannesson forseti tók þátt í öllum ferðum skipsins en ekki gafst tilefni til að bjóða núverandi forseta, Höllu Tómasdóttur, með í ferðina í ár þar sem hún var í opinberri heimsókn í Japan á sama tíma.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2022/06/13/lifandi_skip_og_faert_i_flestan_sjo/

Vilja gera árlega siglingu að hefð

Áhöfn Óðins telur yfirleitt 14–16 manns þegar siglt er, en 8–10 manns standa að viðhaldi skipsins allt árið. „Það kostar bæði mikla vinnu og peninga að halda skipinu gangandi, en við vonumst til þess að fá skilning og stuðning til að geta haldið áfram,“ segir Egill. Ekki hefur verið ákveðið hvert siglt verður næst en áhöfnin vonast til að geta gert árlegar minningarathafnir að fastri hefð. „Við fundum í Ólafsvík hvað fólki þótti vænt um þetta og vonumst til að geta haldið slíkar athafnir áfram,“ bætir Egill við. Ekki eru þau orð úr lofti gripin en um miðjan ágúst færðu fulltrúar Sjómannadagsráðs Ólafsvíkur áhöfn Óðins þakklætisvott fyrir þátttöku þeirra í minningarathöfninni, stækkaða ljósmynd á striga sem tekin var af athöfninni með flygildi. Myndinni var samstundis fundið pláss og hún hangir nú á vegg í undirmannamessanum um borð í Óðni.

til baka