Það eru fáir jafn iðnir við kolann þegar kemur að hérlendu tónlistarstússi og Pan Thorarensen. Í gegnum búðina, útgáfuna og allra handa tónlistarfélagsmiðstöðina Space Odyssey er tónlistariðkun og -sköpun hampað alla daga frá morgni og fram á rauða nótt. Pan er auk þess framkvæmdastjóri Extreme Chill-hátíðarinnar (sem fram fer í septemberbyrjun í Reykjavík) og í gegnum hana hefur hann komið á samstarfi við áþekkar erlendar hátíðir, sem íslenskt jaðartónlistarfólk nýtur góðs af.
Pan hrærir þannig í potti íslenskrar tónlistarmenningar af krafti, framtak sem styður duglega við þann sköpunarþrótt sem hér þrífst og gerir honum aukinheldur kleift að gera strandhögg á erlendri grund.
Til viðbótar við þetta allt saman býr Pan til tónlist sjálfur og ný plata úr hans ranni, Ljóstillífun, er meginumfjöllunarefnið hér.
„Verkið er fjölþætt tónlistar- og hljóðrýmisútgáfa sem spannar mörk raftónlistar, náttúruhljóðs, hugleiðslulistar og tilraunakenndrar hljóðsköpunar. Verkefnið byggist á djúpri tengingu við náttúru Íslands og þá sérstaklega flóru landsins, kyrrðina og þann dulúðuga kraft sem býr í íslensku landslagi,“ segir tónlistarmaðurinn sjálfur.
Við gerð verksins nýtti Pan sér náttúruleg hljóð sem hann safnaði með sérhæfðum hljóðnemum úti um allt land. „Þessar hljóðupptökur – vindur í lyngmó, dropi á laufblaði, dynur í hrauninu – eru grunneiningar í verkinu. Þær eru ekki eingöngu notaðar sem bakgrunnshljóð heldur eru þær fléttaðar inn í sjálfa tónlistina og svo umbreytt með rafrænni hljóðhönnun, hljóðgervlum, modular-kerfum og handgerðum rafhljóðfærum,“ segir hann jafnframt. Um alþjóðlegt verkefni er að ræða og í lögunum/hlutunum átta koma fram jafn margir gestir. Þeir eru ítalska tónskáldið og gítarleikarinn Eraldo Bernocchi, „ambient“-tónskáldið Gigi Masin, bandaríski hljóðhönnuðurinn og náttúruhljóðatökumaðurinn Patricia Wolf, japanski „ambient“-listamaðurinn Moshimoss, japanski fiðluleikarinn Hoshiko Yamane (Tangerine Dream), Óskar Thorarensen (faðir Pans og meðlimur í Stereo Hypnosis) og Þorkell Atlason, tónskáld og gítarleikari, sem einnig er hluti af tríóinu.
Ég verð að segja að þessi plata Pans er virkilega vel heppnuð. Þetta er djúp-„ambient“ mætti segja, lögin, sem eru áþekk að gerð þrátt fyrir ólíka gesti, draga mann inn og hjúpa. Þetta er ein af þessum plötum sem festast á plötuspilaranum mínum eins og sagt er. Hring eftir hring gekk hún, færði ró í brjóstið og á stundum svona varla tók maður eftir tónlistinni, sem er rétt virkni vel saminnar „ambient“-tónlistar. Tónlistin minnir á köflum á meistaraverkið The Pearl (1984) eftir Brian Eno og Harold Budd sem er hámarkshrós í mínum bókum. Pan segir sjálfur um plötuna að tónlistin sé sérstaklega hönnuð til að „skapa innri ró og dýpri tengingu við náttúruupplifun“ og þetta tekst án þess að þetta hljómi nokkru sinni eins og ódýr hugleiðslutónlist sem þú getur keypt úti á bensínstöð. Þetta er heilsteypt verk, flæðið er svo gott sem hnökralaust og áhrifin eftir því.
Ljóstillífun er gefin út af pólska útgáfufyrirtækinu U Know Me Records og kemur platan út í þremur mismunandi vínilútgáfum. Svartur vínill, litaður vínill númeraður og sérútgáfa fyrir japanskan markað (með obi-rönd). Einnig kemur verkið út á kassettu og geisladisk. Greinarhöfundur hefur handleikið þetta allt saman og getur vitnað um efnislega fegurð þessara dýrgripa! Ekki nóg með að andi og sál séu nærð heldur er þessari óneitanlegu þörf fyrir að snerta á hlutum og handfjatla þá sinnt upp í topp líka.