Það sem virtist í fyrstu vera saklaust kvef breyttist í alvarleg veikindi sem tóku frá Magnúsi Mána allan mátt fyrir neðan bringu. Þrátt fyrir að útlitið hafi verið svart á köflum gengur hann nú á ný, eftir mikla vinnu og endurhæfingu.
Um helgina birtist ítarlegt viðtal við hann og móður hans, Sigurbjörgu Ýr Guðmundsdóttur, á mbl.is sem hreyfði við mörgum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/16/missti_mattinn_fyrir_nedan_bringu_en_gengur_a_ny/
Í morgun mættu Sigurbjörg Ýr og Hildur Kristín Sveinsdóttir, sjúkraþjálfari og vinkona fjölskyldunnar, í Ísland vaknar hjá Bolla Má og Hjálmari Erni þar sem þær ræddu þessa einstöku baráttusögu og áform sín í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer 23. ágúst.
Báðar ætla þær að hlaupa tíu kílómetra í maraþoninu fyrir Magnús Mána ásamt honum sjálfum. Yfir 100 aðrir ætla einnig að hlaupa til að styðja við söfnunina.
„Hef orðið vitni að ótrúlega stórkostlegum hlutum“
„Ég er búin að vera með þeim í upphafi í þessu öllu saman. Bæði hef ég fengið þann heiður að hjálpa og hef orðið vitni að ótrúlega stórkostlegum hlutum sem hafa hreyft við mér og okkar fjölskyldu líka, eins og svo mörgum öðrum,“ sagði Hildur í viðtalinu.
„Þetta er bara kvef sem hann fær“
Hún lýsti því jafnframt hversu óvænt veikindin komu upp.
„Þetta er ótrúleg saga af því að þetta er bara kvef sem hann fær eins og krakkar fá yfir höfuð. Hann er bara svo óheppinn að þetta fer inn í mænuna. Þetta leit ekki vel út. Bara alls ekki!“
Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Hildi og Sigurbjörgu í heild sinni í Ísland vaknar. Hér má styðja Magnús í Reykjavíkurmaraþoninu. Hér má svo styðja hann í gegnum Hildi, og Sigurbjörgu.