„Ég var úti að ganga. Það hafði rignt mikið um daginn en svo þegar stytti upp kom sólarlag sem speglaðist fallega í pollunum. Þetta var bara eitt augnablik á bensínstöð og þegar ég hélt áfram þá sá ég þetta ekki lengur. Ég ákvað því að staldra við og snúa til baka til þess að taka mynd. Um þetta snýst sýningin. Að sjá fegurðina sem leynist alls staðar í kringum okkur,“ segir Lilja Birgisdóttir myndlistarkona en í dag opnar hún sýninguna Um leið og þú lítur undan í Þulu galleríi í Marshallhúsinu. Þar sýnir hún átta stór myndverk, svarthvítar ljósmyndir sem hún handmálar á með olíulitum. Úr verður áhugaverð samsuða tveggja ólíkra listmiðla, ljósmyndunar og olíumálverks.
„Hér er ég að vinna út frá ástríðu minni sem er að handmála ljósmyndir en ég hef verið að því frá því ég var í listnámi. Ég kynntist þessum sérstöku ljósmyndalitum þegar ég lærði ljósmyndun í Hollandi og hef safnað þeim alla tíð síðan. Þetta eru olíulitir sem ég fann í antíkverslun í Hollandi og eru aðeins gegnsæir og hleypa því myndinni í gegn. Ég nota litina til þess að draga fram töfrana í annars hversdagslegum hlutum. Litapallettan er mjög afgerandi og skemmtileg en þetta eru fallegir og hlýir pastellitir en samt svo óraunverulegir sem passa vel við það sem ég er að leitast við að fanga í verkum mínum.“
Handunnin verk frá a til ö
Athygli vekur að verkin eru afar stór og voldug og eru handunnin frá a til ö. Verkin eru í stærðinni 84x129 cm og aðeins gert eitt eintak af hverri mynd. Lilja segir að ferlið hafi verið langt og líkamlega krefjandi.
„Þetta eru algjörlega „analog“ verk. Stafræn tækni kemur hér ekkert við sögu. Myndirnar tek ég á gamla Pentax-myndavél sem ég framkalla í myrkraherbergi. Þetta er í fyrsta sinn sem ég framkalla svona stór verk og var ekki með aðstæður til þess og þetta var mjög líkamlega krefjandi ferli. Ég fékk aðstöðu í Ljósmyndaskólanum og þurfti að finna mínar eigin leiðir til þess að framkalla myndirnar. Vanalega leggur maður prentin í þar til gerða bakka en sökum stærðar þurfti ég að smíða mína eigin bakka og rúlla verkunum upp í vökvanum. Ég notast við ljósmyndapappír sem ég pantaði frá Bandaríkjunum sem var mjög þung og stór rúlla. Sem betur fer var ég með aðstoðarmann sem gat verið með mér í þessu.
Loks eru verkin handmáluð og sú vinna tók hvað lengstan tíma enda eru olíulitirnir lengi að þorna. Ég var í margar vikur að mála og oft fram á nætur. Það sem er líka sérstakt er að það er enginn að gera eitthvað þessu líkt, þ.e. að handmála ljósmyndir, þannig að ég gat ekki leitað ráða hjá neinum. Ég þurfti að finna sjálf eigin leiðir og lausnir við þær áskoranir sem upp komu. Sem er bara skemmtilegt,“ segir Lilja en verkin eru þar að auki í handsmíðuðum römmum sem gerðir eru sérstaklega fyrir verkin.
Hljóð og mynd fara saman
Á sýningunni fá áhorfendur einnig að upplifa hljóðmynd sem Lilja hefur skapað í samstarfi við Kjartan Holm tónlistarmann.
„Eitt verkið er mynd af grasi en það sem fékk mig til að staldra við þann stað og taka eftir grasinu var hljóðið af grasinu að bærast í vindinum. Þetta var ótrúlega lítilfjörlegur staður sem engum þykir vænt um, fullt af yfirgefnum hjólum og drasli allt í kring. En augnablikið í vindinum var fallegt. Ég hef því gert hljóðverk sem tengjast stöðunum sem ég var á. Sýningin snýst svo mikið um skynjun. Að skynja heiminn og hlusta á innsæið. Sjálf er ég viðkvæm fyrir miklu ljósi, hljóðum og litum og huga mikið að lýsingu og hljóðvist á sýningunni.“
Að handmála ljósmyndir á sér sterka skírskotun til ljósmyndahefðarinnar fyrir tíma litljósmynda. Hefur sú saga innan ljósmyndunarinnar haft áhrif á þig?
„Auðvitað er maður ómeðvitað að nota þessa tækni og litapallettan í ljósmyndum þess tíma er mjög falleg. Þetta eru oft ýktir og óraunverulegir litir og ég hef alltaf dregist að svona gömlum handmáluðum ljósmyndum en ég nota þessa tækni á allt annan hátt. Ég nota litina til þess að fanga augnablikið og töfrana. Eins og með ljósmyndina af olíupollinum, þar nota ég litina til þess að sýna töfrana í þessum skítuga polli.“
Ilmtónleikar í Mexíkó
Lilja er í listasamsteypu ásamt systkinum sínum, Jónsa, Ingibjörgu og Sigurrós, og í vetur héldu þau saman stóra sýningu í Nordic House í Seattle sem vakti mikla athygli og eru hvergi nærri hætt.
„Við vinnum vel saman og allir hafa sitt hlutverk. Ég er í ljósmyndun, Inga með vídeó og Jónsi með ilm og hljóð. Í haust verðum við með stóra sýningu í Kling & Bang sem er hluti af Sequences-hátíðinni. Sú sýning er áframhald af sýningunni sem við vorum með í Seattle og erum nú að vinna með hrörnun eða niðurbrot. Svo erum við líka á leið til Mexíkó að halda ilmtónleika. Þá á ég einnig þann draum að gefa út bók með handmáluðu myndunum mínum.“
Sýningarstjóri sýningarinnar er Jessamyn Fiore sem starfar í New York. „Hún var sýningarstjóri tveggja sýninga hjá mér í New York en hún er alveg ótrúlega fróð og klár. Hún er afabarn listamannsins Gordons Matta-Clark sem er þekktur fyrir mjög róttæka samfélagslega list og mikil kanóna þar úti. Við Fiore verðum með listamannaspjall þann 28. ágúst sem ætti að vera mjög áhugavert samtal,“ segir Lilja en sýningin í Þulu stendur til 21. september.
„Suma daga vildi ég gjarnan setja vísifingur á sjálfið og njóta aðeins fegurðar sem ég á að nafninu til. Vita nákvæmlega hvar ég enda og heimurinn byrjar. En sjálfið er túnfífillinn sem brýst upp úr viðjum malbiksins og telur sig eiga erindi við sólina. Sjálfið er hverful mynd í regnvatninu, stakur rammi sem við gengum næstum því fram hjá.
Aðeins í augum sem horfa af alúð lifnar heimurinn við, og enn hefur mér ekki tekist að snerta án þess að vera snert. Allt sem ég gæði lit málar innviði mína hispurslaust í sömu litum. Við erum gerð úr öllu sem við gefum gaum. Samtímis sólin og túnfífillinn, við erum fislétt þungamiðja í eigin skynveruleika. Gjöful athygli er það eina sem ég á, að nafninu til.“