mán. 18. ágú. 2025 10:52
Stríðið hefur staðið yfir í tæp tvö ár með skelfilegum afleiðingum.
Ný tillaga um vopnahlé

Samningamenn Hamas-samtakanna í Kaíró í Egyptalandi hafa fengið nýja tillögu um vopnahlé á Gasa að sögn palestínsks embættismanns.

Forsætisráðherra Katar er einnig staddur í Egyptalandi til að þrýsta á um vopnahlé á milli Ísraela og Hamas.

Tilraunir sáttasemjara í Egyptalandi og Katar, ásamt Bandaríkjunum, hafa hingað til ekki náð að tryggja varanlegt vopnahlé í stríðinu sem hefur staðið yfir í 22 mánuði með þeim afleiðingum að alvarleg mannúðarkrísa hefur skapast á Gasasvæðinu.

Kallað eftir 60 daga vopnahléi og lausn gísla

Palestínski embættismaðurinn, sem ræddi við AFP-fréttaveituna með því skilyrði að nafnleyndar væri gætt, sagði að nýjasta tillagan væri rammasamningur til að hefja samningaviðræður um varanlegt vopnahlé. Þar væri kallað eftir 60 daga vopnahléi í upphafi og lausn gísla í tveimur áföngum.

Embættismaðurinn sagði að leiðtogar Hamas myndu halda samráðsfundi sín á milli auk þess sem fundað yrði með leiðtogum annarra palestínskra fylkinga til að fara yfir tillöguna.

Heimildarmaður frá Íslamska jíhad, palestínskri skæruliðahreyfingu sem hefur barist við hlið Hamas á Gasa, sagði við AFP að áætlunin fæli í sér vopnahléssamning sem myndi vara í 60 daga, þar sem tíu ísraelskir gíslar yrðu látnir lausir á lífi, ásamt nokkrum líkum.

Af 251 gísli sem var tekinn í árás Hamas á Ísraela í október 2023, sem var upphafið að stríðaátökunum, eru enn 49 gíslum haldið á Gasa. Þar af eru 27 látnir að sögn talsmanna Ísraelshers.

 

 

til baka