Ástin sem eftir er er fjórða kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd en hann leikstýrði og skrifaði líka kvikmyndirnar Vetrarbræður (d. Vinterbrødre, 2017), Hvítur, hvítur dagur (2019) og Volaða land (2022).
Ástin sem eftir er er frekar ólík fyrri myndum Hlyns sem eru frekar kaldar og niðurdrepandi eins og svo margar bestu íslensku kvikmyndirnar eru. En eins og Vera Illugadóttir segir í stiklu (e. trailer) myndarinnar þá: „[…] eru engir öfgahægrimenn eða morðingjar í þessari mynd, aðeins venjulegt fólk með venjulegar tilfinningar og venjuleg vandamál.
Myndin hefur áhuga á hversdagslegum hlutum eins og gönguferðum, hundabaði, snjó, mat, frosnum fiski, góðum stígvélum, árstíðum, háhyrningum, sumarkjól, Jóhönnu af Örk, húmor, kynlífi eða skorti á því, öllu því sem raunverulega skiptir máli.“ Þessi lýsing Veru Illugadóttur fangar fullkomlega viðfangsefni myndarinnar.
Eins konar ástarbréf til hversdagsleikans
Myndin er eins konar ástarbréf til hversdagsleikans og má því draga þá ályktun að um sé að ræða persónulegasta verk Hlyns. Undir lokar myndarinnar, eftir aðstandendalistann (e. credits), má til dæmis sjá að myndin er tileinkuð fjölskyldu Hlyns og börnin hans, Ída Mekkín, Grímur og Þorgils, leika öll lykilhlutverk í myndinni. Áhorfendur fá það einmitt á tilfinninguna að þeir séu að skyggnast inn í raunverulegt fjölskyldulíf Hlyns og jafnvel þó að persónurnar og atriðin séu tilbúin séu þau byggð á einhverjum sannleika og leikur þar náttúrulegur og trúverðugur leikur leikaranna stórt hlutverk.
Myndin er eins konar samansafn af senum úr hjónabandi og dregur þannig greinilega innblástur frá Senum úr hjónabandi (s. Scener ur ett äktenskap) frá 1974 eftir sænska kvikmyndahöfundinn Ingmar Bergman.
Aðalpersónur myndarinnar, hjónin og foreldrarnir, Anna (Saga Garðarsdóttir) og Maggi (Sverrir Guðnason), eru að taka sín fyrstu skref hvort í sína áttina en svo virðist sem eitthvert aðdráttarafl dragi þau alltaf aftur saman. Hvort það eru börnin þeirra eða, eins og titillinn segir, „ástin sem eftir er“, er stóra spurning myndarinnar. Myndin er nánast eins og löng myndflétta (e. montage) af senum í lífi hjóna sem eru hvort um sig að reyna að ákveða hvort þau elski hitt nógu mikið til að halda áfram að vera saman.
Áhorfendur fá bara brot og brot
Handritið er óvenjulegt af því að það er ekki skýr söguframvinda sem heldur áhorfandanum við efnið heldur fá áhorfendur bara brot og brot sem þeir eiga svo að púsla saman. Handritið er þannig eins og samansafn minninga, sumt man maður af því að það var gott, eins og fjöruferð við sólarlagið, en aðrar minningar eru slæmar og mann langar helst að gleyma þeim en þær láta mann ekki vera, eins og þegar barnið manns slasast.
Slæmar minningar geta líka breyst síðar í góða brandara eða drepfyndin atriði í kvikmynd en þau eru þó nokkur í þessari mynd. Þar sem það er ekki skýr söguframvinda heldur frekar um að ræða samansafn af einlægum augnablikum stillt upp á fallegan hátt í rammanum getur myndin virkað stefnulaus og langdregin á köflum en hafa þarf í huga að hér er um að ræða listræna kvikmynd en ekki endilega týpískt afþreyingarefni og markmiðið því annað.
Aðgengilegasta kvikmynd Hlyns
Hægt væri að ganga svo langt að segja að Ástin sem eftir er sé sjónrænt listaverk og því markmiðið frekar að kalla fram einhverjar tilfinningar eða vekja áhorfendur til umhugsunar. Að því sögðu þá er Ástin sem eftir er sú mynd sem kemst næst því að vera kölluð afþreying, af öllum myndum Hlyns, en eins og titillinn gefur til kynna þá var Volaða land ekki mikið skemmtiefni enda ekki allra að fylgjast með fýldum presti ferðast um Ísland á síðustu öld í meira en tvær klukkustundir. Ástin sem eftir er er þannig aðgengilegasta kvikmynd Hlyns fyrir hinn almenna áhorfanda en þó engan veginn hefðbundin.
Tíminn eða breytingar á lífi yfir einhvern ákveðinn tíma er viðfangsefni eða þema sem má sjá í fyrri myndum Hlyns en það gerir hann með því að kvikmynda hlut yfir ákveðinn tíma og sýna þannig breytingarnar. Þetta gerir hann til dæmis í Hvítum, hvítum degi en þar fáum við að fylgjast með húsi persónunnar yfir ólíkar árstíðir og í Volaða landi fylgjumst við með rotnunarferli hests og manns.
Viðfangsefnið í Ástin sem eftir er er hins vegar fjölskyldan og breytingarnar sem hún fer í gegnum yfir þessar fjórar árstíðir sem myndin spannar en svipað skot og úr fyrri myndum, þar sem tökuvélin situr á einum stað yfir langan tíma, er líka að finna í þessari mynd. Um er að ræða skotið af Jóhönnu af Örk en það er eins konar riddaraklædd fuglahræða úti sem börnin nota til að æfa sig í bogfimi. Í myndinni er mörgum skotum frá sama stað af Jóhönnu af Örk og fallegu náttúrunni í kring raðað saman. Ramminn er alltaf sá sami, þ.e.a.s. tökuvélin færist aldrei en náttúran og veðrið gera það að verkum að hvert skot er öðruvísi en annað. Staðurinn þar sem Jóhanna af Örk er verður líka að stað þar sem börnin geta rætt allt sín á milli, þ. á m. kynlíf foreldra sinna, án þess að foreldrarnir heyri til en þau atriði eru virkilega vel skrifuð og eðlileg.
Eitt besta atriði myndarinnar (Höskuldarviðvörun)
Eitt besta atriði myndarinnar er hins vegar atriðið í bílnum á milli Ídu og föður hennar, Magga (og ef lesandi kærir sig ekki um að láta spilla fyrir sér atriði í myndinni er best að sá hinn sami hætti að lesa núna). Ída er að keyra pabba sinn og spyr hann hvort hann hafi drepið hanann þeirra, Bibba. Maggi hafði kramið Bibba með stórum steini eftir eltingaleik fyrir utan hænsnakofann. Maggi lýgur fyrst að henni og segist hafa skotið hann með byssu og þetta hafi nú allt gengið fljótt yfir. Hann er hins vegar fljótur að leiðrétta sig og segir Ídu satt.
Það er margt mjög spennandi að gerast í þessu atriði. Ída virðist, þrátt fyrir að vera barnið í aðstæðunum, hafa miklu stærri status: hún situr við stýrið, stýrir umræðunni og eftir því sem líður á umræðuna sekkur Maggi dýpra og dýpra niður í farþegasætið og skammast sín. Ída Mekkín sýnir fram á mikla leikhæfileika í þessu atriði en á bak við beittar spurningar til föðurins skynja áhorfendur ekki einungis sorg heldur líka mikla reiði hjá henni, hún er heldur ekki aðeins gagnrýna hann fyrir þetta atvik heldur gagnrýnir hún líka samband hans við móður þeirra um leið. Allt er þetta mjög lúmskt í leiknum en áhorfendur fá á tilfinninguna að verið sé að ræða eitthvað mun stærra en Bibba. Bibbi verður hins vegar mjög stór í næsta atriði sínu þegar hann vekur Magga, sem sefur vært á sófa heimilisins, með látum. Um er að ræða mjög súrrealískt atriði enda haninn núna þrefalt stærri en Maggi. Þessi hanaslagur er þó ekki eina dæmið þar sem töfrar læðast inn í hversdagsleikann og væri því kannski best að flokka myndina undir töfraraunsæi. Súrrealísk atriði eru ófá og bæta miklu við myndina en hanaslagur er mest fullnægjandi fyrir áhorfandann þar sem búið er að byggja upp atriðið svo lengi. Sum súrrealísku atriðin þjóna ekki skýrum tilgangi fyrir heildarsöguna en geta líka staðið ein og sér sem verk.
Kvikmyndatakan falleg og róleg
Til þess að hver og einn rammi geti talist listaverk þarf sjálfur ramminn, þ.e. kvikmyndatakan og allt inni í rammanum, þ.e.a.s. myndheildin sem samanstendur m.a. af gullfallegri leikmynd eftir Frosta Friðriksson og búningum eftir Ninu Grønlund, að vera vandað. Það er að þessu sinni Hlynur sjálfur sem sér um kvikmyndatökuna en þetta er fyrsta myndin hans í fullri lengd sem hann skýtur sjálfur.
Kvikmyndatakan er mjög falleg og róleg sem endurspeglar söguna vel, þ.e.a.s. vélin er alltaf á þrífæti og fylgir sögupersónunum í römmunum eða skimar (e. pan) til beggja hliða þegar það á við. Áhorfendur fá þannig á tilfinninguna að þeir séu eins og fluga á vegg. Myndin er skotin á 35mm filmu sem skilar fallegum litum og áferð. Náttúran fær ekki síður að njóta sín í kvikmyndatökunni í Ástin sem eftir er þar sem fjölskyldan býr á Höfn í Hornafirði og meðal áhugamála þeirra eru fjallgöngur, berjatínsla og fjöruferðir.
Ástin sem eftir er markar ákveðin skil í ferli Hlyns Pálmasonar. Myndin er enn annað dæmi um formrænan metnað hans, vandað myndmálið og forvitni hans um tímans gang en í þetta sinn færist hún nær áhorfandanum með því að sækja efniviðinn í nánasta umhverfi leikstjórans sjálfs, þ.e. fjölskyldunnar og hversdagsleikans. Þar sem fyrri myndir hans hafa oft einkennst af kulda og fjarlægð er hér meira af hlýju, léttleika og jafnvel húmor, þótt undir yfirborðinu leynist enn tregi og óvissa. Hver rammi er vandlega mótaður og kvikmyndatakan á 35mm filmu fangar bæði náttúrufegurð Hornafjarðar og nándina í samskiptum fjölskyldunnar. Leikarahópurinn er í heild sterkur. Sverrir Guðnason og Saga Garðarsdóttir mynda óvænt og áhrifaríkt tvíeyki og trúverðug venjuleg sveitahjón en eru jafnframt mjög myndræn og falla vel inn í listaverkið sem Hlynur reynir að fanga með hverju skoti. Tvíburarnir Grímur og Þorgils, synir leikstjórans, eru þó senuþjófar myndarinnar en prakkaraskapur og náttúrulegur leikur þeirra gefa myndinni enn meiri líf og hlýju. Ekki má gleyma verðlaunaleikaranum, þ.e. íslenska fjárhundinum Pöndu, sem slær í gegn í myndinni en hún hlaut aðalverðlaun Palm Dog Awards á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Ástin sem eftir er er í senn sjónrænt listaverk og innilegt ástarbréf til fjölskyldu. Hún er persónulegasta verk Hlyns hingað til en jafnframt það sem líklegast er til að ná til víðari áhorfendahóps.
Ástin sem eftir er var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðastliðið vor og er fyrst íslenskra kvikmynda til að komast í Premiere-flokk hátíðarinnar. Þetta er hins vegar í annað sinn sem mynd eftir Hlyn er valin í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar og í þriðja sinn sem hann sýnir mynd á hátíðinni. Fyrir þremur árum var kvikmyndin Volaða land sýnd í Un Certain Regard-flokknum og árið 2019 var Hvítur, hvítur dagur heimsfrumsýnd í hliðardagskrá hátíðarinnar, Semaine de la Critique. Volaða land var framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokki bestu alþjóðlegu kvikmyndar árið 2024. Hún komst í forval akademíunnar ásamt 14 öðrum myndum en varð síðan ekki fyrir valinu. Ætli Ástin sem eftir er verði sú mynd sem kemur Hlyni, og þar með Íslandi, loks aftur á Óskarsverðlaunin í flokki bestu alþjóðlegu kvikmyndar síðan Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1991? Það á eftir að koma í ljós.