mán. 18. ágú. 2025 10:16
Fólk rýmir svæði sem varð fyrir áhrifum af skógareldum í þorpinu Vilarino, í sveitarfélaginu Carballeda de Avia, í norðvesturhluta Spánar.
Fjórða dauðsfallið í skógareldunum á Spáni

Slökkviliðsmaður lést þegar slökkviliðsbíll valt á meðan hann barðist við skógarelda í norðvesturhluta Spánar en mikil hitabylgja hefur verið á Íberíuskaganum undanfarna daga þar sem hitinn hefur víða farið yfir 40 gráður. 

Þar með hafa fjórir látið lífið í skógareldunum á Spáni sem hafa geisað í landinu í meira en viku.

afa

Spænska ríkisstjórnin hefur sent 500 hermenn til viðbótar til að hjálpa við að ná tökum  á þeim 20 skógareldum sem geisa í landinu og samtals hafa um 2.000 hermenn verið sendir út um allan Spán til aðstoðar við að hefta útbreiðslu eldanna.

Alls hafa um 115 þúsund hektarar lands brunnið í skógareldunum og loka hefur þurft vegum og hraðbrautum vegna ástandsins.

 

Erfiðir dagar fram undan

„Því miður eru enn erfiðir dagar fram undan. Veðrið er ekki með okkur,“ sagði Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, á fréttamannafundi í morgun.

Þá lést einn slökkviliðsmaður í Portúgal í gærkvöld en eins og á Spáni hafa skógareldar geisað á mörgum stöðum og hafa yfirvöld í báðum löndum óskað eftir aðstoð frá Evrópusambandinu.

Í dag voru um 2.000 slökkviliðsmenn sendir á vettvang um Norður- og Mið-Portúgal, og um helmingur þeirra var kallaður út til að reyna að slökkva elda í bænum Arganil.

 

 

 

til baka