sun. 17. ágú. 2025 22:19
Frá mótmælum kvöldsins.
Mikill fjöldi Ísraela mótmælir stríðinu

Tugir þúsunda mótmælenda söfnuðust í Tel Avív í dag til að krefjast þess að stríðinu á Gasa yrði hætt og gíslar yrðu látnir lausir. Þetta voru ein stærstu mótmæli í Ísrael síðan átök hófust í október árið 2023.

„Komið með þau öll heim! Stöðvið stríðið!“ hrópaði mannfjöldinn sem hafði safnast saman á svokölluðu „Gíslatorgi“ í Tel Avív en torgið hefur verið miðpunktur mótmæla í borginni frá því að stríðið hófst.

Samtök gísla og týndra fjölskyldna stóðu fyrir mótmælum um allt Ísrael í dag en þau áætla að um 500 þúsund manns hafi tekið þátt í kvöldmótmælunum í Tel Avív. Lögregluyfirvöld hafa hins vegar ekki staðfest þá tölu.

Breytt réttlátu stríði í tilgangslaust stríð

„Við krefjumst alhliða og raunhæfs samkomulags og enda á stríðinu. Við krefjumst þess sem er okkar með réttu, barnanna okkar,“ sagði Einav Zangauker í ávarpi á mótmælafundinum en sonur hennar er einn þeirra sem að Hamas-samtökin hafa haldið í gíslingu frá 7. október árið 2023.

„Ísraelska ríkisstjórnin hefur breytt réttlátu stríði í tilgangslaust stríð,“ sagði Zangauker.

Innlendir fjölmiðlar birtu myndbandsskilaboð frá syni hennar, Matan Zangauker, fyrr í dag þar sem gíslinn, veikburða og horaður, ávarpaði fjölskyldu sína og sagði þeim að hann saknaði þeirra.

Fjölskylda Matans segir að myndbandið hafi fundist á Gasasvæðinu en að það hafi verið tekið upp af Hamasliðum.

til baka