mán. 18. ágú. 2025 00:20
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Pútín hlynntur verndartryggingu fyrir Úkraínu

Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segir Vladimír Pútín Rússlandsforseta hafa samþykkt að leyfa Bandaríkjunum og Evrópu að bjóða Úkraínu viðamiklar öryggistryggingar sem hluta af hugsanlegum friðarsamningi milli Rússlands og Úkraínu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá en í samtali við CNN sagði Witkoff að á leiðtogafundinum í Alaska hefði Pútín fallist á að Bandaríkin og Evrópa gætu gefið Úkraínu álíka verndartryggingu og NATO-ríki njóta, en í henni felst að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á öll ríki bandalagsins.

Pútín hefur lengi verið andvígur inngöngu Úkraínu í NATO, en Witkoff sagði fyrirkomulagið geta verið ákjósanlega málamiðlun séu Úkraínumenn reiðubúnir að samþykkja hana. 

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lýsti tryggingartilboði Bandaríkjanna sem sögulegu en hann sagði að allar hugsanlegar öryggistryggingar yrðu að vera raunhæfar og að Evrópa yrði að hafa aðkomu að vernd á landi, í lofti og á sjó.

Á morgun funda leiðtogar hinna svonefndu viljugu þjóða, þ.e. Bretlands, Þýskalands og Frakklands með Bandaríkjaforseta ásamt leiðtogum Evrópusambandsins og NATO en Bretar, Þjóðverjar og Frakkar hafa lýst því yfir að þeir muni tryggja friðargæslu í Úkraínu þegar stríðinu lýkur.

til baka