Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að hann og aðrir Evrópuleiðtogar muni krefja Donald Trump Bandaríkjaforseta svara um það hversu langt hann sé tilbúinn að ganga varðandi öryggistryggingu fyrir Úkraínu, en líklegt þykir að kveðið verði á um slíka tryggingu fyrir Úkraínu í mögulegu friðarsamkomulagi við Rússland.
Tryggingunni yrði ætlað að tryggja Úkraínu vernd á borð við þá sem ríki Atlantshafsbandalagsins njóta, en Macron hefur lýst efasemdum um þau áform þar sem hann telji að ekki sé að finna raunverulegan vilja til að semja um frið hjá Rússum.
Ganga á fund Trumps
Macron lét ummælin falla skömmu eftir að hann fundaði símleiðis með öðrum leiðtogum Evrópu fyrr í dag, en á morgun mun hann ásamt leiðtogum Bretlands, Þýskalands og Úkraínu ganga á fund Trumps í Washingtonborg þar sem farið verður yfir niðurstöður fundar hans og Pútíns.
Þá sagði Macron ekki vera hægt að ræða um öryggi Evrópubúa án þeirra aðkomu og bætti við að evrópskir leiðtogar ættu að fá að sitja næstu leiðtogafundi um stríðið í Úkraínu.