Heiðar Sveinsson, framkvæmdastjóri Hyundai á Íslandi, hefur látið af störfum eftir þriggja áratuga langt og farsælt starf hjá fyrirtækinu.
Þetta segir í tilkynningu frá BL.
Lýkur hann endanlega störfum hjá félaginu 30. september en við kefli Heiðars tekur Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL. Mun Trausti Björn Ríkharðsson ganga í hans stað sem þjónustustjóri fyrirtækisins. Breytingarnar tóku formlega gildi þann 13. ágúst.
35 ára reynsla í starfi
Heiðar Sveinsson hefur starfað í bílgreininni í um 35 ár, fyrst hjá Bílaumboðinu ehf. á árunum 1991 til 1995 sem sölustjóri fyrir vörubíla og rútur frá Renault.
Þá réðst hann til Bifreiða- og landbúnaðarvéla sem sölustjóri fyrir atvinnubíla sem jafnframt markaði upphaf rekstrar atvinnubíladeildar B&L.Sjö árum síðar, eða 2002 tók Heiðar við starfi framkvæmdastjóra sölusviðs nýrra og notaðra bíla.
Sumarið 2008 tók Heiðar svo við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og 2012 við starfi framkvæmdastjóra Hyundai á Íslandi við sameiningu B&L ehf. og Ingvars Helgasonar ehf. sem hlaut nafnið BL ehf. Hyundai hefur á þessum árum sótt mjög fram og er eitt af burðarmerkjum BL og eitt söluhæsta merki félagsins.
Framkvæmdastjóri þjónustusviðs í 10 ár
Ingþór Ásgeirsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra þjónustusviðs BL frá árinu 2015, en undir sviðið heyra rekstur þriggja bifreiðaverkstæða BL, réttingar- og málningarverkstæðið að Viðarhöfða, innkaupadeild, heildsala og dreifing varahluta, tollamál og standsetning nýrra bíla.
Ingþór hefur setið í þjónusturáði Bílgreinasambandsins og stjórnum fyrirtækja sem tengjast BL-samsteypunni og einnig komið að því að styrkja réttinda- og gæðamál innan bílgreinarinna.
Trausti Björn Ríkharðsson á einnig langa sögu að baki hjá BL, en hann réðst upphaflega til BL sem nemi í bifvélavirkjun árið 2003 og hélt áfram starfi hjá fyrirtækinu að lokinni útskrift.
Í ársbyrjun 2017 tók Trausti við starfi þjónustustjóra Jaguar Land Rover og á síðasta ári við nýju hlutverki sem þjónustustjóri BL ehf., sem hann gegndi uns hann var ráðinn framkvæmdarstjóri þjónustusviðs félagsins, en undir það heyra allar starfsstöðvar BL sem eru alls sex í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.