sun. 17. ágú. 2025 22:18
Rema 1000-verslun í Kaupmannahöfn. Í Præstø, um hundrað kílómetrum sunnar, neyddust stjórnendur Rema 1000 til þess að selja mjólkurpottinn á einn eyri eftir mistök í pöntun.
Pantaði tíu gáma í stað tíu kassa

Í Danmörku hefur umræða um ört hækkandi matarverð farið fjöllunum hærra sem víðar á Norðurlöndum og þótti því mörgum kveða við nýjan tón þegar ein verslana Rema 1000-keðjunnar auglýsti mjólkurtilboð sem í eyrum margra hljómaði sem mjög síðbúið aprílgabb.

Í Rema 1000 í Præstø á Sjálandi, tæpa 100 kílómetra suðvestan Kaupmannahafnar, selst mjólkurpotturinn nú á einn danskan eyri sem samsvarar 19 íslenskum aurum, með öðrum orðum 0,19 krónum íslenskum.

Þetta gjafverð er langt undir almennu mjólkurverði Rema 1000 í Danmörku, en samkvæmt verðyfirliti á heimasíðu verslunarkeðjunnar þegar þessi frétt er skrifuð leggur einn lítri af léttmjólk sig á 12,50 krónur, jafnvirði tæpra 240 íslenskra króna.

 

Tókst að stöðva flæðið á þriðjudag

Skýringuna á þessu öllu saman má rekja til mannlegra mistaka, eftir því sem Stine Øster, kaupmaður í Rema 1000-versluninni í Præstø, segir blaðamanni Sjællandske Nyheder frá, en málið er þannig vaxið að þegar til stóð að panta hefðbundna tíu kassa af mjólk, fyrir rúmri viku, voru tíu gámar pantaðir fyrir handvömm þess starfsmanns sem þar var að verki.

Í hverjum gámi eru 160 kassar af mjólk.

Fyrstu gámarnir voru afhentir við verslunina á sunnudaginn var og á mánudag héldu gámarnir áfram að streyma að frá birgjanum og voru þó ekki allir tíu komnir eftir mánudaginn. „Okkur tókst að stöðva þetta á þriðjudaginn,“ segir Øster við SN og kveður allt hafa verið gert til að forðast mætti að hella mjólkinni niður.

Í raun réttri ókeypis

Fyrsta tilboðið var fimm danskar krónur, 96 íslenskar, sem fljótlega lækkaði í þrjár, sem eru 57,5 íslenskar, en þegar mjólkin tók að nálgast síðasta neysludag voru góð ráð dýr og málið farið að snúast um björgun verðmæta frekar en bara að losna við marga gáma af mjólk frá versluninni. Þrautalendingin varð því einn eyrir.

„Það er í raun réttri ókeypis,“ játar kaupmaðurinn og skýrir verðtökuna með því að tæknilega séð sé ekki hægt að gefa mjólkina, hún þurfi að fara gegnum hið rafræna auga búðarkassanna og því þurfi að fylgja eitthvert verð.

„En það endar með því að við þurfum að hella þessu,“ segir Stine Øster að lokum, verslunin neyðist jú til þess að kaupa inn nýjar mjólkurbirgðir sem ekki séu við það að vera á síðasta neysludegi miðað við umbúðamerkinguna.

Sjællandske Nyheder
Sjællandske Nyheder-II (forsætisráðherra segir dýrtíðina úr hófi)

til baka