Leiðtogar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna ítreka stuðning sinn við Úkraínu í sameiginlegri yfirlýsingu sem segir Pútín ekki vera treystandi.
Í yfirlýsingunni segjast ríkin staðföst í stuðningi sínum við Úkraínu og tilraunir til að binda enda á stríð Rússa á hendur landinu, tilraun Trumps þar á meðal.
„Til að ná fram réttlátum og varanlegum friði verður næsta skref að vera í samstarfi við Úkraínu. Aðeins Úkraína getur tekið ákvarðanir um framtíð sína. Engar ákvarðanir um Úkraínu án Úkraínu og engar ákvarðanir um Evrópu án Evrópu,” segir í yfirlýsingunni.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/08/17/leidtogar_evropu_sitja_fund_selenskis_og_trumps/
Vopnahlé nauðsynlegt
Þá segir: „Reynslan hefur sýnt að Pútín er ekki treystandi.“ Það sé á ábyrgð Rússlands að stöðva brot þess á alþjóðalögum, aðgerðir Rússlands séu rót stríðsins.
Leiðtogarnir krefjast þess að Rússland skili börnunum sem hefur verið rænt á hernumdum svæðum og að stríðsfangar og almennir borgarar verði látnir lausir.
Í yfirlýsingunni segir að vopnahlé og öryggistryggingar fyrir Úkraínu séu nauðsynlegar ef koma eigi á friði. Friðarsamkomulag krefjist fastra og skýrra skuldbindinga þvert yfir Atlantshafið um að vernda Úkraínu fyrir árásum í framtíðinni. Þá ættu engar takmarkanir að vera settar á herlið Úkraínu og samstarf landsins við önnur lönd.
Rússland hafi ekki neitunarvald þegar komi að inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið, NATO.
„Við munum halda áfram að vopna Úkraínu og bæta varnir Evrópu til að hindra frekari árásir Rússlands. Svo lengi sem Rússland heldur áfram að myrða munum við halda áfram að styrkja refsiaðgerðir og önnur úrræði til að beita þrýsting á efnahag Rússlands.“
Tilkynningunni lýkur á orðunum: „Við stöndum föst á óbreyttum stuðningi okkar við sjálfræði, frelsi og landhelgi Úkraínu.”
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/08/16/sagdur_stydja_tillogu_putins_um_landtoku/