Síðustu daga hefur orðrómur verið á kreiki um að hljómsveitin Oasis muni spila tónleika á Laugardalsvelli næsta sumar.
Orðrómurinn á uppruna í skjali sem gengur manna á milli sem sýnir tónleikaferðalag sem Oasis á að vera að fara á næsta ári um Evrópu.
Í skjalinu stendur að lokatónleikar ferðalagsins verði á Laugardalsvelli 30. ágúst.
Algjört rugl
„Þetta er algjört rugl, það er staðfest. Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið,” segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri tónlistar- og viðburðasviðs hjá Senu, í samtali við blaðamann mbl.is.
Hann hafi haft samband við Live Nation sem sér um tónleika Oasis og fengið staðfest að þetta væri bull. Það sé ekki í kortum hljómsveitarinnar að koma til Íslands.
Ísleifur segist ekki vita hvaðan skjalið kemur eða hver tilgangur þess sé.
Sprakk allt
„Það sprakk allt hjá mér þegar þetta byrjaði fyrir nokkrum dögum,“ segir Ísleifur. Hann segir símtölum og skilaboðum varla hafa linnt síðustu daga.
„Við fyrstu sýn lítur þetta alveg fagmannlega út,“ segir hann um skjalið. „Svo rýnir maður í þetta og sér margt sem er skrýtið þarna. Ég er til dæmis ekkert viss um að þeir séu að fara meira á túr.“
Óraunverulegasta hluta skjalsins segir hann vera að á því standi að gefa eigi það út strax en að miðasala hefjist í nóvember. „Þetta væri ekki tilkynnt með margra mánaða fyrirvara.“
Fjörugt ár
Hann segir algengt að svikahrappar hafi samband við hann og þykist vera umboðsmenn. „En þetta er svolítið spes að einhver sé að búa til þetta skjal.“
Þrátt fyrir að Oasis-bræður haldi ekki tónleika hér á landi segir Ísleifur að fólk megi búast við stórum tilkynningum fyrir áramót.
„Það horfir fram á það að það verði ansi fjörugt ár á næsta ári.“