sun. 17. ágú. 2025 20:00
Sigurður Laufdal hjá Lólu sérhæfir sig í pastaréttum en allt pasta er búið til frá grunni.
Vodkapasta rokselst!

Í fallega gamla húsinu sem stendur við Tryggvagötu 11 má nú finna veitingastaðinn Lólu. Kokkurinn Sigurður Laufdal stendur þar í brúnni og stjórnar sínu teymi þegar hann er ekki sjálfur að hræra í pottum eða búa til pasta frá grunni.

Sigurður, margreyndur og -verðlaunaður matreiðslumeistari, tók vel á móti blaðamanni á mánudaginn var og ræddum við um matinn, staðinn og sjálfan Gordon Ramsey sem mætti nýverið ásamt fríðu föruneyti. Að sjálfsögðu bauð Sigurður upp á tvo dásamlega pastarétti og ljúffengan eftirrétt sem lesendur geta svo spreytt sig á að elda heima.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/04/18/kokkurinn_sem_heilladi_ramsay_opnar_nyjan_veitingas/

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/05/06/thad_var_fullt_ut_ur_dyrum_a_lolu/

Lifandi og skemmtilegur

Lóla var opnuð í maí en áður hafði þar verið veitingastaðurinn Anna Jóna sem Haraldur Þorleifsson átti og rak um skeið. Sigurður ákvað að ómögulegt væri að láta fullbúinn veitingastað á frábærum stað í bænum standa auðan og opnaði því Lólu.

„Mig dreymdi alltaf um að opna veitingastað og gerði það með öðrum áður en ákvað svo að opna þennan stað sjálfur. Það einfaldar lífið að vera einn í rekstri og ég stökk á tækifærið,“ segir Sigurður.

„Nú eru þrír mánuðir síðan við opnuðum og gengur vel,“ segir hann.

Spurður um konseptið segist Sigurður ekki vilja einskorða sig við eina tegund matargerðar því hann hafi gaman af því að leika sér með ólíkar bragðtegundir og -samsetningar. Hann segist þó horfa mikið til Ítalíu, Frakklands og alls Miðjarðarhafsins.

„Þetta er stór staður og maður verður að höfða til margra; það verða allir að geta fundið eitthvað við hæfi. Og þótt ég horfi mest til Ítalíu, þá vil ég ekki láta setja mig í eitt box. Staðurinn á að vera lifandi og skemmtilegur og ég spila þetta eftir mínu höfði,“ segir hann.

„Hér er mikið af pastaréttum sem hafa verið mjög vinsælir, enda er hér allt pasta handgert. Það er mikil vinna á bak við það þegar allt er gert frá grunni. Mikili handavinna! Pastað er að slá í gegn þannig að ég held áfram með það,“ segir Sigurður og brosir.

 

Gordon Ramsey mætti

Hvaða pastaréttur er vinsælastur?

„Það hefur verið nokkuð breytilegt en agnolotti með geitaosti og fíkjum er mjög vinsæll og eins humarpasta. En cavatelli í vodkasósu er allt í einu orðið gífurlega vinsælt. Á laugardaginn var seldi ég fjörutíu skammta. Sá réttur hefur verið vinsæll en mögulega jukust vinsældirnar eftir að Gordon Ramsey kom hingað fyrir nokkrum vikum og pantaði sér þennan rétt og póstaði því á samfélagsmiðlana. Þetta hefur rokselst síðan,“ segir Sigurður, en pasta er nú nýjasta áhugamálið hans.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/07/26/gordon_ramsay_maetir_enn_og_aftur_til_sigurdar/

„Það er svo mikill munur á fersku pasta og þurru og nú hef ég sérhæft mig í þessu í einhvern tíma. Það eru til endalaust margar tegundir af pasta og gaman að prófa sig áfram. Ég fæ líka allan ostinn beint frá Ítalíu og það gerir gæfumuninn. Ég er búinn að pæla í þessu öllu og smakka og vel það sem mér finnst best. Svo pæli ég mikið í bragðsamsetningum og þar spilar inn í reynsla og hæfni.“

Á matseðlinum eru líka kjötréttir og hefur ribeye með pólentufrönskum og sósu verið vinsælt. Á eftirréttaseðli eru meðal annars nokkrir ítalskir réttir eins og pistasíu-cannoli og tíramísú.

Staðurinn tekur 110 í sæti og er opinn á kvöldin þriðjudaga til laugardags. Sigurður segist ætla að byrja að hafa opið á laugardögum í dögurð frá og með menningarnótt.

„Eftir það mun ég bjóða upp á brunch á laugardögum.“

Skjálfti í eldhúsinu

Sigurður segir sífellt fleira fólk sækja staðinn heim og eru gestir langflestir Íslendingar. Mögulega hjálpaði það til að fá heimsókn frá stjörnukokkinum Gordon Ramsey en hann hefur sérstakar mætur á Sigurði og hefur heimsótt hann áður, og það í tvígang, á öðrum stað.

Vissir þú af því fyrir fram að hann væri að koma?

„Ég sá nafnið hans í bókun, með stuttum fyrirvara,“ segir Sigurður.

„Þá fóru allir að skjálfa í eldhúsinu,“ segir hann og hlær.

„Það er aðeins öðruvísi að fá hann sem gest, það verður bara að segjast eins og er. Í fyrsta sinn sem ég eldaði fyrir hann var ég mjög stressaður en í dag er ég afslappaðri. Hann heilsar okkur bara og er farinn að þekkja sumt starfsfólkið með nafni,“ segir Sigurður, en Ramsey mætti með sjö vinum sem koma hingað árlega í veiðiferð.

Hvað pantaði hann sér?

„Hann pantar alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart; rétti sem ég hefði ekki haldið að hann myndi fara í. Hann byrjaði á nautacarpaccio og síðan vodkapasta sem nú er að slá í gegn. Síðan deildu þeir allir öllum eftirréttunum,“ segir hann.

„Hann virtist vera ánægður með matinn og eins staðinn í heild. Hann talaði mikið um hvað honum fannst hann fallegur og að þar væri bíósalur,“ segir Sigurður, en þess má geta að staðnum var nokkuð breytt frá því sem áður var. Minna er um bleika liti og meira um rauðbrúna terrracotta-tóna í anda Ítalíu.

„Þetta er bara venjulegur veitingastaður og alls ekki of fínn en við leggjum gífurlega mikið upp úr því að maturinn sé í lagi og eins þjónustan og umhverfið. Allt þetta skiptir máli. Þetta er erfiður bransi en ég hef verið í honum í tuttugu ár og hef lært ýmislegt. Ég er hér sjálfur alla daga og hjartað mitt er hérna. Og þetta byrjar vel!“

 

Cavatelli alla vodka

Fyrir 4-6

Cavatelli-deig

Aðferð:

  1. Hnoðið saman, vefjið inn í plastfilmu og látið standa inn á kæli í klst.
  2. Rúllið út deigið og skerið í litla kubba, mótið með höndum á pasta-viðarkubbi með röndum í.
  3. Ef ekki er til má líka nota endann á gaffli.
  4. Sjóðið í léttsöltuðu vatni þangað til cavatelli flýtur upp á yfirborðið.

Vodkasósa

Aðferð:

  1. Svitið lauk og hvítlauk í smjöri, bætið við vodka og sjóðið niður,
  2. bætið rest við og látið malla í dágóða stund.
  3. Má bæta við aukarjóma eða aukaarrabiatasósu ef þurfa þykir.
  4. Hellið sósu yfir pastað, toppið með burrata, ólífuolíu og basil.

 

 

Agnolotti með geitaosti og fíkjum

Fyrir 4-6

Pastadeig(gott að gera jafnvel daginn áður)

  • 600 g 00-hveiti
  • 240 g eggjarauður
  • 100 g vatn
  1. Vinnið deig saman og vefjið þétt inn í plastfilmu og látið standa inn á kæli a.m.k. í klst.

Agnollotti-fylling

  • 400 g ricotta
  • 140 g rifinn parmesan
  • 2 eggjarauður
  • ein lúka blanserað og saxað spínat
  • 1 stk rifinn hvítlauksgeiri

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í matvinnsluvél, smakkið til með salti, múskati, sítrónusafa og -berki.
  2. Fletjið deigið út og skerið í ílanga kassa.
  3. Setjið smá fyllingu á helminginn og lokið með hinum helmingnum.
  4. Gott er að þrýsta köntunum vel saman með gaffli svo ekki leki úr við suðu.

Geitaostssósa

  • 100 g parmesan-vatn ( 50/50 vatn og parmesan soðið saman og sigtað)
  • 100 g mjólk
  • 40 g smjör
  • 100 g geitaostur

Aðferð:

  1. Hitið upp á öllu, takið í gegnum matvinnsluvél og svo sigti, þykkið með maizena og smakkið til með salti.
  2. Sjóðið pastakoddana í söltu vatni sem náð hefur suðu í tvær og hálfa mínútu.
  3. Berið fram með geitaostssósu, brúnuðu smjöri, fíkjum, furuhnetum og salvíu.

 

Vöfflu-cannoli

Fyrir 4-6

Pistasíukrem

  • 225 g rjómi
  • 25 g glúkósi
  • 25 g invert-sykur
  • 100 g pistasíu-paste
  • 325 g hvítt súkkulaði
  • 2 matarlímsblð
  • 500 g rjómi

Aðferð:

Hitið fyrst 225 g rjóma, glúkósa, invert-sykur og pistasíu-paste upp í 82°C og hrærið vel í á meðan.

Takið af hellunni og bætið við matarlími og súkkulaðinu og hrærið þar til bráðnað.

Hellið síðan kalda rjómanum saman við, hálfum lítra.

Látið standa í kæli yfir nótt og þeytið upp daginn eftir eins og verið væri að þeyta rjóma.

Tonkakrem

  • 2 vanillustangir
  • 4 tonkabaunir
  • 80 g eggjarauður
  • 50 g muscovado-sykur
  • 50 g sykur
  • 40 g maizena
  • 400 g mjólk
  • 200 g smjör
  • salt til að smakka

Aðferð:

  1. Pískið saman tonkabaunir, vanillu, egg, sykur og maizena.
  2. Bætið við mjólk og sjóðið upp, sigtið og bætið smjöri við með töfrasprota, kælið niður.

Saltkaramella

  • 200 g sykur
  • 150 g rjómi
  • 150 g smjör
  • salt til að smakka

Aðferð:

  1. Gerið karamellu í potti úr sykri, bætið við heitum rjóma og svo pískið smjör saman við undir lokin.
  2. Fyllið cannoli með öllum kremtegundum og toppið með pistasíum og poppkorni.
  3. Að búa til skeljarnar frá grunni er nokkuð flókið, en margar uppskriftir eru til af þeim á netinu.
  4. Hægt er að nota fyllinguna í pönnukökur eða búa til þunnar og stökkar vöfflur.
til baka