mán. 18. ágú. 2025 14:00
Hafþór Júlíus skorar á Elon Musk

Kraftlyftingarmaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson, eða „The Mountain“ eins og hann er kallaður um allan heim, skorar á auðkýfinginn Elon Musk, eiganda miðilsins X og stofnanda OpenAI, að framleiða aflrauna vélmenni.

Það leikur enginn vafi á því að Hafþór Júlíus Björnsson er sterkasti maður heims. Á dögunum setti hann heimsmet í réttstöðulyftu þar sem hann lyfti 505 kílóum á kraftlyftingamóti í Þýskalandi. Að auki á Hafþór 127 heimsmet að baki ásamt fjölmörgum annars konar metum í íþróttagreininni.

Hafþór var gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum á dögunum. Þar fórr hann um víðan völl og ræddi til að mynda kraftlyftingarnar, ferilinn og einkalífið, svo eitthvað sé nefnt.

Elon Musk óskaði Hafþóri til hamingju með heimsmetið 

Líkt og fram hefur komið sló Hafþór nýlega sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 505 kílóum, fyrra met hans var 501 kíló frá árinu 2020 en það var tekið í líkamsræktarstöðinni hans hér heima á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins sem þá geisaði um víða veröld. Mörgum þótti það met umdeilt vegna aðstæðna og því segir Hafþór núverandi met vera enn sætari sigur fyrir hann.

Hafþóri hafa borist hamingjuóskir víðs vegar að úr heiminum undanfarið og komið frá ótrúlegasta fólki. Þó viðurkennir Hafþór að áhugaverðasta hamingjuóskin sem honum barst hafi verið skilaboð frá sjálfum Elon Musk. Þau skilaboð komu Hafþóri svo sannarlega í opna skjöldu. 

 


Hafþór er hvergi nærri hættur en hann stefnir á að slá heimsmetið aftur í Birmingham þann 6. september næstkomandi með 510 kíló á stönginni.

Opnar á tækifæri að vera virkur á samfélagsmiðlum

Hafþór er duglegur að deila því sem hann er að gera á samfélagsmiðlunum sínum og notar  helst vettvang Instagram til þess. Þó hefur hann séð ýmsa möguleika á að opna dyr fyrir nýjum tækifærum með því að vera virkur á samfélagsmiðlinum X. Þar skiptast stærstu nöfn heims á skoðunum og senda sín á milli en miðillinn er mjög vinsæll og stór í Bandaríkjunum. 

Hafþóri hafa borist ýmis skilaboð og meðal þeirra er boð frá engun öðrum en Hollywood-stjörnunni og glímukappanum Dwayne „The Rock“ Johnson þar sem hann bauð Hafþóri að koma að æfa með sér. Þar gætu tækifæri legið fyrir Hafþór þar sem hann stefnir á að gefa meiri kost á sér í kvikmyndaverkefni. Sennilega er þá ekki verra að eiga æfingafélaga í Hollywood.

 

Hafþór skorar á Elon Musk

 „Nú er hann á fullu að framleiða bíla og SpaceX og svona, getur hann ekki framleitt einhvern svaka róbot. Eitthvað svona „Human vs. AI-róbot“,“ segir Hafþór sem sér fyrir sér að Elon Musk framleiði aflrauna gervigreindarvélmenni og að það keppi á móti manneskju í aflraunum. 

Spurður hvort hann væri til í að taka að sér að spreyta sig á móti Strongman-vélmenni Elon Musk svarar Hafþór án þess að hika:

„Hundrað prósent,“ og skorar á Elon Musk að framleiða vélmenni til að takast á við Fjallið, hið eina sanna.

Nú er bara að bíða og sjá hvort Elon Musk skorist undan eður ei.

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að sjá viðtalið við Hafþór Júlíus í heild sinni.

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/daegurmal/260419/ 

til baka