sun. 17. ágú. 2025 21:08
Fólk horfir yfir hafið af bekk á Kivinokka-ströndinni í Helsinki. Engin banaslys hafa orðið í umferð borgarinnar síðan í júlíbyrjun í fyrra.
Engin banaslys í heilt ár

Finnar náðu þeim árangri í umferðinni í öndverðum júlímánuði að ekkert banaslys hafði orðið á götum höfuðborgarinnar Helsinki í eitt ár, frá því í júlíbyrjun í fyrra og til jafnlengdar í ár.

Þakka finnsk yfirvöld slyngri áætlanagerð, þróun umferðarmannvirkja og auknum hraðatakmörkunum árangurinn.

Roni Utriainen, umferðarverkfræðingur í umhverfis- og þéttbýlisdeild borgarinnar, segir vefmiðlinum Helsinki Times að hraðatakmarkanirnar séu þungamiðja umferðaröryggis, en hámarkshraði á meira en helmingi allra gatna í Helsinki er nú að hans sögn 30 kílómetrar miðað við klukkustund. Fyrir hálfri öld var löglegur hámarkshraði í borginni hins vegar 50 víðast hvar.

Hönnun umferðarmannvirkja hefur einnig mikið að segja að sögn verkfræðingsins og nefnir hann sem dæmi að gangandi og hjólandi vegfarendum hafi verið veitt aukið rými með áherslu á að aðskilja þá aflvæddri umferð bifreiða og bifhjóla. Þá hafi umferðarlöggæsla verið efld umtalsvert, meðal annars með auknu samstarfi borgaryfirvalda og lögreglu.

30 banaslys á ári á níunda tugnum

„Almenningssamgöngur í Helsinki eru prýðisgóðar sem dregur úr notkun einkabifreiða og þar með alvarlegum slysum,“ segir Utriainen við Helsinki Times og styður mál sitt tölfræði.

Undanfarna tólf mánuði hafa 277 umferðarslys haft líkamstjón í för með sér á móti um eitt þúsund slíkum slysum á ofanverðum níunda áratug síðustu aldar – samtímis því sem banaslys í umferðinni í Helsinki einni og sér voru allt að 30 ár hvert.

Kveður Utriainen þróunina hafa verið jákvæða árum saman, enda spanni viðleitni borgarinnar til að draga úr alvarlegum umferðarslysum áratugi. Viðurkennir Utriainen þó að rafmagnshlaupahjól séu borgaryfirvöldum enn töluverð áskorun þótt um þau hafi verið settar reglur, meðal annars með það fyrir augum að takmarka hraðakstur á þeim.

Utriainen hrósar borgaryfirvöldum í Helsinki og ekki síst ökumönnum og vegfarendum fyrir að hafa lyft grettistaki í sameiningu, en Evrópusambandið hefur einnig háleit markmið og hyggst ná fjölda banaslysa niður í núll árið 2050 í ríkjum sínum með átaki sem þar kallast Núllsýn, eða „Vision Zero“.

Helsinki Times
YLE

til baka