sun. 17. ágú. 2025 15:02
Bragðlaukarnir lurkum lamdir

Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans

Í pistlunum hér á síðum Viðskipta­Moggans hef ég ósjaldan kvartað yfir vínframboðinu á Íslandi. Á það t.d. við um viskíinnflytjendur að þeir láta oft nægja að flytja inn aðal­vöruna frá framleiðendum sínum frekar en að bjóða upp á alla breiddina, hvað þá að þeir flytji inn skammlífar sérútgáfur sem reglulega skjóta upp kollinum.

Eftir á að hyggja var þetta fjas í mér ekki alveg sanngjarnt, því þó svo úrvalið á litla Íslandi sé ekki eins og í milljónaborgum úti í heimi þá er framboðið af áfengi furðugott miðað við smæð markaðarins og allar þær skorður sem laga- og gjaldaumhverfi áfengissölu setur innflytjendum. Að ekki sé minnst á meingallaðar innkaupareglurnar hjá ÁTVR.

Það er ekkert grín að flytja inn vín sem er tollað í spað og bannað að auglýsa, og það fyrir 400.000 manna örmarkað. Er aðdáunarvert hvað innflytjendur – bæði þessir stóru og rótgrónu, en líka þeir nýju, litlu og metnaðarfullu – hafa þó náð að lyfta framboðinu upp. Veit ég líka að oft hefur það ekki verið auðsótt að sannfæra framleiðendur um að það sé fyrirhafnarinnar virði fyrir þá að gefa Íslandi nokkurn gaum, enda eru sendingarnar til Íslands mældar í pallettum og jafnvel bara í kössum á meðan aðrir markaðir taka við flöskum í gámavís.

Svo má heldur ekki gleyma hlutverki neytenda. Það styður við metnað innflytjenda að Íslendingar hafa áhuga á gæðavínum og sýna lit þegar nýjar flöskur nema land. Vínmenning landans hefur stórbatnað og fólk hefur langtum betri skilning en áður á því hvers konar lífsgæði felast í því að njóta gæðavína. Sést jákvætt viðhorf landsmanna kannski hvað best á því að þegar haldin eru vínnámskeið fyllast öll pláss með hraði.

Að öllu þessu sögðu kæmi mér alls ekki á óvart ef Ísland ætti höfðatölumet þegar kemur að sölu víntegunda í fínni kantinum.

Enginn silkipúði

Tilefni þessara hugleiðinga er að fyrir tveimur vikum skrifaði ég um áhugavert viskí frá Laphroaig, en komst svo að því að þessi uppáhalds­framleiðandi margra íslenskra viskíunnenda hefur dregið sig í hlé frá íslenska markaðinum. Vefur Fríhafnarinnar er reyndar loksins farinn að sýna eitthvert lífsmark og af þeim takmörkuðu upplýsingum sem þar má núna finna er hægt að ráða að ferðalangar geti keypt eina týpu af Laphroaig á Keflavíkurflugvelli. Hjá ÁTVR er hins vegar allt tómt.

Þetta er skellur fyrir íslenska viskíheiminn, enda ekki að ástæðulausu að Laphroaig skuli vera mest selda Islay-viskíið á heimsvísu. Viskin frá Islay eru þekkt fyrir að vera í kröftugri kantinum, með jafnan keim af fjöru, torfi og reyk, og er skemmst að minnast framleiðenda á borð við Ardbeg, Caol Ila og Lagavulin, en Laphroaig er fremst meðal jafningja.

Ég hef það fyrir satt að okkar færustu menn vinni að því að telja Laphroaig hughvarf, en þangað til er ekki annað að gera en að skoða hvað fleira Islay hefur upp á að bjóða:

Mig hefur lengi langað til að skoða betur Port Charlotte-viskíið frá brugghúsi Bruichladdich. Lesendum til upprifjunar nær rekstrarsaga Bruichladdich aftur til ársins 1881 en reksturinn gekk misvel svo að félagið lagði að lokum upp laupana. Brugghúsið var endurvakið árið 2001, af fólki með mikinn metnað og ástríðu, og er Bruichladdich núna þekkt fyrir gæði, frumleika og að stytta sér hvergi leið í viskígerðinni.

Haustið 2021 fjallaði ég um kjarnavöru fyrirtækisins, The Classic Laddie (þessa í skærgrænu flöskunni) og líkti ég þessum kraftmikla en óreykta drykk við flugspark frá Jean-Claude van Damme. Síðasta sumar kom svo röðin að Octomore (þessu í löngu svörtu flöskunum) en þar er útgangspunkturinn að hafa fenólahlutfallið eins hátt og mögulegt er. Það eru fenólin sem gefa viskíi reykjar- og torfbragðið, og stundum keim sem menn líkja við lyfjamixtúru, og eru Octo­more-viskíin algjörar bombur.

Þar mitt á milli lendir Port Charlotte, en viskí var fyrst framleitt undir þessu nafni frá 1829 til 1929 í verksmiðju sem var lokað vegna kreppunnar miklu og bannáranna. Það er Innnes sem flytur inn, og býður upp á 10 ára viskíið, sem er grunnvaran.

10 ára Port Charlotte er fyrir viskíunnendur sem vilja drykk sem lætur mikið fyrir sér fara. Þetta er kraftmikið viskí, án þess að vera óheflað, og rífur í bragðlaukana. Sumir hafa lýst bragðinu þannig að það sé „olíukennt“, og eikin fer ekki á milli mála. Stundum er eins og Port Charlotte sé alveg við það að fara yfir strikið en svo jafna skilningarvitin sig og galdrarnir koma í ljós. Það má greina alls konar blæbrigði ef fólk hefur athyglina við sopann: pipar, rjóma­karamellu, appelsínubörk og salt, en enginn skyldi samt halda að þetta viskí sé einhvers konar silkipúði.

Ég leik mér stundum að því með svona afgerandi viskí að bæta nokkrum dropum af vatni út í, og verður drykkurinn þá aðgengilegri og sætan kemur betur í ljós. Þeir sem vilja hafa ísmola í viskíinu sínu ættu að prófa Port Charlotte því þetta viskí er svo þéttvaxið og loðið á bringunni að það er heilmikið eftir af bragðinu þó að ísmolinn kæli drykkinn og þynni hann út.

til baka