Myndskeið af 82 ára manni að nafni Terry að bjarga kóalabirni úr miðri umferð í Ástralíu hefur slegið í gegn á netinu og gert hann að eins konar goðsögn á samfélagsmiðlum.
Þar má sjá Terry ganga rólega á milli kyrrstæðra bíla, taka kóalabjörninn upp og færa hann í skjól áður en hann beygir sig niður og skammar hann með puttann á lofti. „You tell him, grandpa,“ heyrist kona segja í myndskeiðinu.
Í viðtali við 7News útskýrði Terry að hann hefði verið að reyna að hjálpa dýrinu.
„Ég var að segja honum að hætta að klóra mig því ég var að reyna að hjálpa honum,“ sagði hann og bætti við: „En þessi litli skaphundur hélt bara áfram að klóra.“
Terry sagðist jafnframt hafa byggt á fyrri reynslu af kóalabjörnum og vonaðist þess vegna að hann myndi í þetta skiptið sleppa við rispur.
„Ef maður nær að grípa björninn fljótt og heldur rétt á honum, þá áttar hann sig á því – sérstaklega þegar maður byrjar að færa hann út af veginum – að hann sé að komast úr hættu.“
Terry lét klórin þó ekki á sig fá. „Þetta eru bara rispur,“ sagði hann og bætti við að hann hefði farið aftur daginn eftir til að kíkja á nýja vin sinn, sem hann kallar Ted.
„Ég sá hann ekki í fyrstu, en svo hreyfði hann sig. Já, hann vissi að ég væri kominn aftur,“ sagði Terry.
Hér má sjá myndbandið af björgunaraðgerðunum.