sun. 17. ágú. 2025 08:39
„Hugmyndin er að bjóða höfundum að gramsa í skúffunni eftir textum sem eiga hvergi heima,“ segir Fríða.
„Ég stenst ekki pínulitlar bækur“

Á ferð um landið í sumar varð á vegi blaðamanns Morgunblaðsins forvitnileg lítil bók. Það var bókin Fjölskyldusaga eftir skáldið Fríðu Þorkelsdóttur, pínulítið rit í rauðu broti sem komst hæglega fyrir í brjóstvasa. Við lestur kom í ljós að sagan sem hún geymir er þó að engu leyti smá. Blaðamaður stóðst því ekki mátið að hafa uppi á skáldinu og spyrja nánar út í verkið.

 

Bjó lengi í skúffunni

Fjölskyldusaga bjó lengi ofan í skúffu að sögn Fríðu áður en hún fékk að líta dagsins ljós. Innblásturinn að útgáfunni kom skyndilega og úr óvæntri átt. „Lengi vel vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera við söguna því lengdin er svo vandræðaleg. Hún er styttri en smásaga en lengri en örsaga og átti því ekkert viðeigandi form.

Eina nóttina var ég síðan á gangi niður Austurstrætið og mætti þar Vottum Jehóva sem voru að dreifa agnarsmárri bók sem þeir kölluðu Personal Bible eða Persónulegu biblíuna. Mér fannst svo sérstakt að handleika þennan litla hlut, bók í smækkaðri mynd, og það veitti mér innblástur.

Seinna var ég á frábæru námskeiði um örforlög hjá Önu Stanichevic í Háskólanum þar sem ég fékk hvatningu til að láta verða af hugmyndinni sem hafði þá verið að brjótast um í kollinum á mér í smátíma.“

Hún fékk síðan vinkonu sína, grafíska hönnuðinn Selmu Láru Árnadóttur, til þess að hanna bókina og brjóta hana um. „Fjölskyldusaga minnir á persónulegu biblíuna að útliti, svo að einhverjir gætu jafnvel ruglast á þeim,“ bætir hún við létt í bragði.

Sandkassar og systraást

Sagan inniheldur endurminningar höfundar sem færðar hafa verið í skáldlegan búning. Þá segir hún meðal annars frá blautum sandkössum og systrakærleik, harðsnúnum kennurum og óskiljanlegum heimi fullorðinna út frá sjónarhorni barnsins. „Hún er skrifuð út frá þeirri barnslegu sýn sem maður finnur í minningunni. Samt er þetta ekki ævisaga og ég færi bæði í stílinn og fæ lánað annars staðar frá. Mögulega kannast þó einhverjir í fjölskyldunni við ákveðna búta af sjálfum sér.“

Er gott að fjalla um svo stórt efni í smáu broti? „Já, það finnst mér. En stíllinn minn er líka knappur og mér finnst gott að láta ýmislegt eftir ósagt í textanum. Þegar lesandinn fær ekki öll smáatriðin virkjar hann ímyndunaraflið í staðinn.“

Spurð í framhaldinu hvort hún lesi sjálf mikið af brjóstvasabókum hlær Fríða og spyr á móti hvort blaðamaður muni eftir litlu brandarabókunum sem gefnar voru út hér áður fyrr. „Þær voru í miklu uppáhaldi hjá mér sem barn og enn þann dag í dag stenst ég ekki svona pínulitlar bækur ef ég kemst í þær. Það er einfaldlega eitthvað við þær.“

Með leynileg áform

Bókina gefur Fríða út ásamt kærastanum sínum, kvikmyndagerðarmanninum Baldvini Vernharðssyni, undir merkjum framleiðslufyrirtækisins hans, Truflunar. „Ég er með leynilega áætlun um að breyta Truflun í bókaforlag og þetta er bara fyrsti liðurinn í því,“ greinir Fríða frá kímin.

Þá stendur einmitt til að gefa út fleiri brjóstvasabækur og er bók númer tvö í seríunni væntanleg núna í haust. „Hugmyndin er að bjóða hinum ýmsu höfundum, þekktum og óþekktum, að gramsa í skúffunni sinni eftir textum sem eiga hvergi heima nema þar og mögulega í pínulítilli bók. Ég held að það séu alls konar perlur fastar ofan í skúffu úti um allan bæ einfaldlega vegna þess að við ákváðum einhvern tímann fyrir löngu að það væri ekki til neitt form fyrir þær. Með útgáfunni langar mig að búa til þetta form sem vantar til að hýsa þær.“

Hún bætir við, leyndardómsfull: „Ég ætla ekki að segja of mikið en höfundur næstu bókar er frægari en ég.“

Betra að lesa litlar bækur?

Fjölskyldusaga er til sölu í þremur bókabúðum í miðbæ Reykjavíkur, Skáldu, Garg og Bókumbók, auk þess sem hægt er að kaupa hana beint af höfundi. Fríða segir mikilvægt að styðja við sjálfstæðan rekstur bókabúða hér á landi þar sem hann auðgi bókmenntaflóruna. „Þetta eru allt litlar bókabúðir sem hafa sprottið upp nýlega og hafa allar sína sérstöðu. Úrvalið í þeim er ólíkt því sem er í stærri keðjunum og það finnst mér jákvætt og spennandi því það þýðir að þú getur farið í ólíkar bókabúðir í leit að mismunandi upplifun.“

Spurð að endingu hvort við ættum kannski öll að lesa minni bækur hlær Fríða örlítið áður en hún svarar. „Mér finnst allavega að við ættum að lesa fleiri bækur. Stórar og smáar. En það má segja að litlu bækurnar séu að ýmsu leyti hentugri en þær stærri því þær komast svo auðveldlega fyrir í brjóstvasanum og þær má lesa í einum rykk yfir morgunbollanum. Þú færð afrekstilfinningu fyrir lágmarks vinnu.“

til baka