Þrír vinir úr Garðabæ hófu nýverið framleiðslu á tilbúnu poppkorni sem kallast Puff. Poppið er framleitt í Mosfellsbæ og er nú komið í sölu í Hagkaup og Bónus.
„Hugmyndin kviknaði í lok síðasta árs. Við félagarnir vorum búnir að vera að hugsa þetta í dálítinn tíma. Okkur fannst vanta eitthvað nýtt og ferskt í popp- og snakkgeirann og ákváðum því að búa til nýtt poppkorn,“ segir Árni Eyþór Hreiðarsson en hann og vinir hans Arnar Ingi Valgeirsson og Eiður Orri Kristjánsson eru saman í Puff poppævintýrinu.
„Við ákváðum að kýla á þetta þegar við sáum auglýsingu frá Högum um Uppsprettuna. Við gerðum kynningu fyrir þá og vorum eitt þeirra frumkvöðlaverkefna sem voru valin í Uppsprettuna. Þetta hefur verið mikið ævintýri síðan. Það hefur margt gengið á og þetta er miklu meira en maður gerir sér grein fyrir þegar farið er af stað í svona verkefni. Hagar hafa hjálpað mikið til með margt í ferlinu og auðvitað með því að gefa okkur tækifæri að markaðssetja vöruna og selja hana í þeirra verslunum. Þetta skiptir allt mjög miklu máli og ekki síst að komast með vöruna inn í Hagkaup og Bónus,“ segir Árni.
Þrjár bragðtegundir komnar á markað
Puff er tilbúið poppkorn með ýmsum bragðtegundum. „Við erum með þrjár bragðtegundir í gangi til að byrja með en erum með fullt af öðrum hugmyndum og erum að prófa og þróa okkur áfram. Bragðtegundirnar eru sjávarsalt, sætt & salt og hokkísalt og við höfum fengið góð viðbrögð við þeim öllum. Þannig að væntanlega bætist eitthvað nýtt bragð við Puff poppflóruna áður en langt um líður,“ segir Árni með bros á vör.
Poppkornið er nýkomið inn í verslanir Hagkaups og Bónus og er að fá góð viðbrögð. „Það er vissulega spennandi og skemmtilegt að sjá vörurnar okkar í hillunum. Það er enn skemmtilegra að sjá fólk versla Puff poppkornið,“ segir hann.
Puff poppkornið er framleitt úr baunum sem koma frá Nebraska í Bandaríkjunum að sögn Árna. Poppið er loftpoppað til að komast hjá óþarfa fitu og í framhaldi úðað létt með kókosolíu sem festir kryddið.
Lukkudýrið lundi
Merkið á Puff poppkornspokunum er fuglategundin lundi. „Við vildum hafa eitthvað lukkudýr og við hugsuðum um lundann sem er „puffin“ á ensku þannig að þetta er smá orðaleikur. Auðvitað er lundinn fallegur fugl og táknrænn fyrir Ísland þannig að okkur fannst hann alveg fullkominn í þetta hlutverk,“ segir Árni enn fremur.