sun. 17. ágú. 2025 20:00
Mikið er um fossa í Ithaca-borg í New York-ríki í Bandaríkjunum.
Bestu staðirnir til að heimsækja í Bandaríkjunum

Hinar ýmsu borgir Bandaríkjanna sameina það besta sem landið hefur upp á að bjóða. Þær eru umvafðar stórbrotnu landslagi og hafa þróast í takt við smekk fólksins sem sest þar að og skoðar þá. 

CNN tók saman bestu staði Bandaríkjanna til að heimsækja í ár. Borgirnar voru valdar með tilliti til matar og drykkjar, menningar- og næturlífs, fjölbreytileika og nálægð við aðra áhugaverða staði.

Hér eru þeir staðir sem lentu í efstu þremur sætunum.

1. Ithaca, New York

Háskólaborgin Ithaca er staðsett í norðurhluta New York-ríkis. Svæðið í kringum Ithaca er þéttsetið gljúfrum og fossum sem flæða niður gróskumikið land, umkringt vínekrum á Finger-Lakes svæðinu. Menningin er fjölbreyttari og meiri en stærð bæjarins gefur til kynna. Þar má að hluta til þakka fjölmennum hópi háskólanema sem bætir við fjölbreytni staðarins, en Ivy League-háskólinn Cornell er staðsettur í Ithaca. Áhugafólk um jarðfræði, fugla og tónlist mun finna margt við sitt hæfi á þessum stað.

2. Missoula, Montana

Missoula í Montana-ríki er staðsett þar sem fjórar bestu veiðiár Bandaríkjanna mætast. Nú, meira en nokkru sinni fyrr er fluguveiði órjúfanlegur hluti af lífstíl heimamanna og vatnið og viðáttumikið óbyggðalandslagið bjóða endalausa möguleika til ævintýra. Þessi staður hefur einnig notið vinsælda vegna lifandi tónlistar og heimsklassa keramiklistar.

3. Asheville, North Carolina

Í meira en öld hefur Asheville dregið að sér gesti sem leita að endurnærandi dvöl í friðsæla fjallabænum í Blue Ridge-fjöllunum. Stærsta einkaheimili Bandaríkjanna, Baltimore-húsið, var byggt í þessari borg undir lok 19. aldar sem sveitasetur. Á síðasta ári lenti bærinn illa í fellibylnum Helene sem olli miklu tjóni og truflaði daglegt líf bæjarins. Stormurinn gerði þetta seiga samfélag þó bara enn samheldnara.

Fallegar gönguleiðir, litrík hverfi, líflegt samfélag og ljúffengan mat má þó enn finna í Asheville fyrir gesti til að njóta.

til baka