Vala Valtýsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem spyr út í söluhagnað húsnæðis og skerðingu ellilífeyris.
Sæl,
Nú átti ég íbúð sem ég skuldaði mikið í og ákvað að selja og borga upp skuldina og keypti mér sumarhús til að búa í í einhver ár, fyrir það sem ég átti í íbúðinni og er búinn að endurnýja mikið til að geta búið í allt árið. Ef ég svo sel bústaðinn á hærra verði en ég keypti hann á og kaupi mér dýrari íbúð í þéttbýli aftur þarf ég þá að borga aukaskatt af sölunni á bústaðnum og munu ellilaunin frá TR skerðast? (Ég tek það fram að við hjónin erum komin yfir 70 árin og seldum íbúðina okkar af því við réðum ekki við að borga af lánunum sem við borguðum upp og keyptum ódýrara sumarhús til að búa í í skamman tíma).
Kveðja frá ráðalausum eldri borgurum.
Góðan dag,
Ef ég skil spurninguna rétt þá eigið þið ekkert annað húsnæði en sumarhúsið. Almenna reglan er sú að söluhagnaður húsnæðis telst til skattskyldra fjármagnstekna. Hins vegar eru undanþágur frá því. Annars vegar ef seljandi hefur átt íbúðarhúsnæði í tvö ár á söluári og húsnæðið er til eigin nota eða samtals rúmmetrar fara ekki fram úr 600 rúmmetrum á söludegi ef um einstakling er að ræða eða 1.200 rúmmetrum ef hjón eiga í hlut. Hins vegar gildir undanþágan einnig um frístundahúsnæði, að teknu tilliti til framangreindra stærðarmarka ef einungis nýtt af eigendum og ekki verið til útleigu gagnvart endurgjaldi og eignarhaldið varað að lágmarki sjö ár. Af fyrirspurn þinni verður ráðið að þið búið í sumarhúsinu sem er þá einungis til eigin nota og teljist því ekki vera frístundahúsnæði. Ef svo er tel ég að almenna undanþágan eigi við í ykkar tilviki.
Kveðja,
Vala Valtýsdóttir
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Völu eða öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR