sun. 17. ágú. 2025 14:30
Samkeppnishæfni landsins sterk

Ísland hefur klifrað upp í 15. sæti á lista yfir samkeppnishæfustu ríki heims, tveimur sætum ofar en í fyrra, þrátt fyrir þráláta verðbólgu, ójafnvægi í ríkisfjármálum og hægari hagvöxt en áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs, Íslenska hagkerfið 2025.

Skýrslan dregur upp mynd af hagkerfi sem hefur gengið í gegnum miklar sveiflur á undanförnum árum. Eftir öran vöxt í kjölfar heimsfaraldursins, þar sem verg landsframleiðsla (VLF) jókst um 8,7 prósent árið 2022, kom lítilsháttar samdráttur árið 2024. Nú eru horfur á hóflegum vexti næstu ár, sem einkum er drifinn áfram af einkaneyslu, enda hafa heimili enn umtalsverðan sparnað.

Ísland hefur bætt stöðu sína í alþjóðlegri samkeppni, einkum í skilvirkni atvinnulífs og stjórnarháttum fyrirtækja, þar sem landið er nú í 1. sæti. Ragnar Sigurður Kristjánsson, hagfræðingur á málefnasviði Viðskiptaráðs, segir að það sé mikilvægt að viðhalda þessum styrkleikum, en jafnframt að vinna úr veikleikum í skilvirkni hins opinbera og efnahagslegri frammistöðu.

„Við þurfum að tryggja fyrirsjáanleika í skattastefnu og forðast stöðugar breytingar með stuttum fyrirvara. Fyrirtæki þurfa tíma til að laga sig að nýjum reglum,“ segir Ragnar.

Hafsteinn segir að samkeppnishæfni Íslands sé almennt mjög sterk. Hann telur að niðurstöður nýrrar skýrslu Viðskiptaráðs dragi þetta vel saman; Ísland búi við trausta stofnanaumgjörð og réttarvernd, vel menntað vinnuafl, mikinn félagslegan auð í formi jafnaðar, trausts og samheldni, auk tiltölulega mikils athafnafrelsis í alþjóðlegum samanburði. Þá nefnir hann sem sérstakan styrkleika að landið sé nær algjörlega sjálfu sér nægt um tiltölulega ódýra orku, sem skipti miklu máli, líkt og vinaþjóðir Íslands í Evrópu hafi fundið fyrir eftir innrásina í Úkraínu. Hann segir að þetta séu lykilþættir sem tryggi langvarandi farsæld þjóða og að ekki sé tilviljun að Ísland mælist oft í hópi efstu ríkja í landsframleiðslu á mann og lífsgæðum.

Verðbólgan föst í kringum 4%

Verðbólgan hefur verið þrálát undanfarin ár. Hún náði hámarki í febrúar 2023, þegar vísitala neysluverðs mældist 10,2 prósent, aðallega vegna hækkunar húsnæðisverðs. Aðhald Seðlabankans og styrking krónunnar hafa fært hana niður í 4,1 prósent, en hún er enn yfir markmiði bankans.

„Það eru alltaf tilviljanakenndir liðir, eins og flugfargjöld, sem geta sveiflast milli mánaða,“ segir Ragnar, „en undirliggjandi vandinn er að verðbólga er of há og hefur reynst þrálát,“ bætir hann við.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 0,75 prósentum árið 2021 í 9,25 prósent árið 2023, sem er hæsta vaxtastig í áratug. Síðan hefur bankinn lækkað þá í 7,5 prósent í maí 2025. Ragnar segir að vaxtalækkanirnar séu merki um að bankinn sjái hægja á verðbólgu, en nýlegar mælingar hafi þó dregið úr líkum á frekari lækkunum strax.

„Við setjum ekki fram eigin verðbólguspár, en við fylgjumst grannt með öðrum markaðsaðilum,“ segir Ragnar. „Flestir virðast sammála um að verðbólgan sé föst í kringum fjögur prósent og erfitt verði að koma henni niður til skamms tíma. Það verður áhugavert að sjá hvað Seðlabankinn segir í næstu Peningamálum.“

Lesa má greinina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.

til baka