mið. 20. ágú. 2025 06:00
Þar sem börn eru á netinu þar eru líka fullorðnir einstaklingar sem leita í samskipti við börn.
Fullorðnir einstaklingar í leit að samskiptum við börn í Roblox

Skúli Bragi Geirdal, sviðsstjóri hjá Netöryggismiðstöð Íslands, var gestur í Dagmálum á dögunum ásamt Birgittu Þorsteinsdóttur, grunnskólakennara og aðstoðarskólastjóra á Siglufirði. Í þættinum voru netvenjur og netöryggismál barna til umræðu en samkvæmt þeim Skúla og Birgittu er mjög brýnt að gætt sé betur að netöryggi barna hér á landi.

Þá sé þörfin á netöryggisfræðslu ekki síður mikilvæg fyrir alla aldurshópa. Þörfina segja þau haldast í hendur við sístækkandi stafrænan heim sem verður æ algengari hluti af hversdagsleika barna og fullorðinna. 

Leikir fyrir börn ekki eins saklausir og þeir virðast

Að sögn Skúla er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn átti sig á hvaða áhrif stafrænn veruleiki hefur á börn, hvaða áskoranir eru fólgnar í honum og hver markmið og tilgangur hans er. Aukin samfélagsmiðla- og tölvuleikjanotkun barna kallar á sama tíma á aukið aðhald foreldra því ekki er allt efni sem ætlað er börnum jafn saklaust og það sýnist. 

„Hann er gott dæmi. Vanalega þegar ég er að taka við foreldra þá halda þeir að Roblox sé einn leikur en þetta er náttúrulega platform með fullt af leikjum og þar inni eru leikir sem eru engan veginn við hæfi barna,“ segir Skúli Bragi um tölvuleikja vettvanginn Roblox.

„Varðandi börnin þá eru þau að spila Roblox af því að þetta eru barnalegir leikir fyrir börn og þar með eru allir vinir mínir þar þá börn. En það er ekki rétt. Þar sem börn eru á netinu þar eru líka fullorðnir einstaklingar sem leita í samskipti við börn.“

Ókunnugir og ógeðfellt efni

Tölvuleikurinn Roblox hefur notið gríðarlegra vinsælda á meðal barna víðs vegar um heim. Í raun er ekki um einn tiltekinn tölvuleik að ræða heldur eins konar tölvuleikjatorg sem á sama tíma er einnig hægt að flokka sem samfélagsmiðil. Þrátt fyrir að Roblox-leikurinn sé markaðssettur fyrir börn og líti barnalega út þá bendir Skúli á að leikurinn eigi sér ákveðnar skuggahliðar sem mikilvægt er fyrir forráðamenn að vera vakandi fyrir. 

„Þá þurfum við að fara líta aðeins inn á við því það eru allar líkur á því að barnið okkar, jafnvel þótt það sé í 1. bekk, lendi í því þegar það fer á netið að einhver ókunnugur reyni að fara tala við það eða að það sjái eitthvað ógeðfellt efni sem festist á heilanum eins og lag sem við getum ekki hætt að syngja,“ lýsir hann. 

„Og hvað á ég að gera þá? Get ég talað við mömmu og pabba? Eru þau búin að opna á þetta samtal eða fer ég að tala við þennan ókunnuga mann sem veitir mér athygli sem ég fæ ekki fá foreldrum mínum,“ veltir Skúli fyrir sér.

Svo þori ég ekki að segja mömmu og pabba frá því þá fer ég í símastraff.

„Einmitt, þau verða hrædd um að missa símana sína eða að foreldrarnir bregðist það illa við að þú missir Internet-tímann þinn í stað þess að opna á þetta samtal og vera til staðar,“ bætir Birgitta við.

„Við megum ekki vera ásakandi. Þau eru svo hrædd við þetta og að við förum að skammast í þeim: „hvað ert þú að tala við þennan og hvað ert þú að gera þetta“,“ útskýrir Skúli og segir skammirnar hafa lítið upp á sig. Betra sé að leiðbeina og fræða.

 

Ekki dónalegt að loka á ókunnugt fólk 

Skúli er spurður að því hvernig best sé að bregðast við aðstæðum sem þessum á réttan hátt. Segir hann lykilatriði að forráðamenn haldi ró sinni, sýni aðstæðunum skilning og séu reiðubúnir að reiða fram aðstoð við að losa barnið úr þessum óþægilegu aðstæðum án þess að vera ásakandi. 

„Auðvitað bara með því að aðstoða. Það er ekkert dónalegt að „block-a“ ókunnugan einstakling á netinu. Það er heldur ekkert dónalegt að svara honum ekki eða henda honum út og fá aðstoð við að eyða honum,“ segir Skúli og bendir á að miklu máli geti skipt að börn finni til trausts og öryggis hjá forráðamönnum svo þau treysti sér til að segja frá upplifunum sínum og hugarangri til að hægt sé að lágmarka skaðann sem þá og þegar hefur orðið eða gæti fundið sér farveg sé ekki gripið tímanlega inn í.  

„Að við tölum um þetta efni sem við sáum og vakti hjá okkur óhug. Ég sem barn var hræddur við einhverja eina ljósmynd í einhverju jóladagatali sem ég var með uppi á vegg og ég gat ekki sofið þegar ég var með þetta dagatal inni hjá mér. Ein brúða sem var uppi hillu hjá ömmu, ég gat ekki sofið fyrir henni. Það þarf ekki meira en það. En svo erum við að hleypa börnunum okkar inn á YouTube, sem er netsjónvarpsstöð og samfélagsmiðill sem er fullur af þessu.“ 

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að horfa á viðtalið við þau Skúla Braga og Birgittu í heild sinni.  

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/daegurmal/260096/

til baka