Berlín er lífleg, fjölbreytt og sögurík borg. Hér blandast nútími og fortíð á hverju götuhorni, listin lifir á götum og í galleríum, næturlífið er öflugt og hvert hverfi hefur sinn eigin karakter. Það besta er þó að í Berlín getur þú verið nákvæmlega eins og þú ert - þú munt alltaf finna stað þar sem þú passar inn.
Að gera og sjá
The Upside Down safnið
Skemmtilegt og frumlegt safn með yfir tuttugu þemaherbergjum, sjónhverfingum og risastóru boltahafi. Frábært fyrir unga jafnt sem aldna sem vilja leika sér aðeins.
Friedrichstadt‑Palast
Stórsýningar á stærsta leiksviði heims sem skarta hátt í hundrað listamönnum á sviðinu. Árlega leggur hálf milljón gesta leið sína þangað og sýningarnar vekja mikla lukku þrátt fyrir að einhverjir gestir tali ekki þýsku. Fullkomið val fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað einstakt og glæsilegt.
Barry’s
Ef þú vilt byrja daginn af krafti er líkamsrækt Barry’s í Mitte frábær leið. Keðjan er upprunnin í Los Angeles en hefur fest rætur víða í Evrópu, þar á meðal í Berlín. Kraftmiklar bootcamp-æfingar í dimmum sal og dúndrandi tónlist með því svíkur engan. Stemningin er fyrsta flokks og frábær byrjun á deginum.
Hæsta róla Evrópu
Í High Swing Berlin á þaki Park Inn við Alexanderplatz getur þú rólað þér í 120 metra hæð yfir borginni. Þetta er fyrir hörðustu adrenalínfíklana og ég er ekki ein af þeim. Ég get þó ímyndað mér að þetta sé spennandi fyrir marga.
Fá söguna beint í æð
Röltið um miðborgina er lifandi sögutími. Gakktu um minnisvarða Helfarinnar, staldraðu við og lestu þér til. Ég mæli með því að skoða leifar Berlínarmúrsins til að fá borgina í samhengi.
Nætulífið
Berlín er þekkt fyrir einstakt næturlíf. Ég lagði þó ekki í að kanna það af neinu viti, en ákvað að skoða andrúmsloftið fyrir utan raðirnar á stöðunum. Fljótlega áttaði ég mig á að ég passaði ekki alveg inn - þar sem ég var í hvítum kjól og pinnahælum á meðan flestir í röðunum voru klæddir öllu svörtu og í þykkum leðurstígvélum.
Matur og drykkir
Spree Fumée
Fullkominn staður til að horfa á sólsetrið. Hlýlegt veitingahús á skipi í sögulegri höfn. Eldhúsið býður upp á léttan og hollan asískan mat, drykkirnir eru öðruvísi en skemmtilegir og útsýnið yfir ána setur punktinn yfir i-ið.
VOX Restaurant
Hádegisstoppið var ekki af verri endanum - ég fékk mér besta Caesar-salat sem ég hef smakkað á meðan kærastinn minn naut dýrindis nauts með béarnaise og frönskum. Staðurinn var einstaklega glæsilegur og ég hlakka strax til að koma aftur.
Papillon
Veitingastaður sem breytist í klúbb - frábært konsept! Hér smakkaði ég besta túnfisk-tartar sem ég hef fengið. Því miður bilaði eitthvað í eldhúsinu þetta kvöld, þannig að aðeins voru í boði kaldir réttir og pítsur. Það var mikill skellur þar sem pítsurnar voru ekki upp á marga fiska og ég hafði verið mjög spennt fyrir steikinni þar sem hún á að vera mjög góð. Stemningin var hins vegar mögnuð og jókst eftir því sem leið á kvöldið.