Íþróttafræðingurinn Gerður Jónsdóttir, betur þekkt sem Gerða In Shape, hefur getið sér gott orð í gegnum tíðina fyrir góða hóptímaþjálfun. Íslenskar konur kunna margar að meta tímana hennar enda hafa þeir verið gríðarlega vinsælir. Nú í ágúst hefst nýr kafli hjá henni en hún er að opna sitt eigið stúdíó í Garðabæ.
„Ég heiti Gerða og er menntaður íþróttafræðingur, fædd og uppalin í Mosfellsdal. Bakgrunnur minn er í fimleikum, sem ég tel vera minn helsta og besta grunn. Fimleikar kenndu mér styrk, aga og líkamsvitund, atriði sem hafa fylgt mér í öllu sem ég geri. Eftir fimleika prófaði ég ýmsar keppnisíþróttir eins og júdó, box, taekwondo, crossfit og fleira sem styrktu mig enn frekar í þjálfun og reynslu.
Það var má segja eðlileg þróun fyrir mig að fara í nám í íþróttafræði. Ég fór beint í grunnnám, síðan mastersnám, og eftir útskrift byrjaði ég strax að þjálfa. Þetta er einfaldlega mín köllun; að miðla áfram þekkingu og hjálpa öðrum að finna gleðina í hreyfingu.“
Hvar byrjaðir þú að þjálfa?
„Ég byrjaði upphaflega að þjálfa í Mjölni og átti góðan tíma þar sem ég er þakklát fyrir, þar næst lá leiðin í World Class og svo með stuttu stoppi í Silfra Spa áður en ég opnaði mitt eigið stúdíó! Ég vissi alveg á hverjum stað að þetta var ekki staðurinn sem mig langaði að vaxa og þroskast en mikilvæg stopp til þess að læra og bæta við í reynslubankann. Ég er ekki manneskja sem á að vera með yfirmann, ég er alveg búin að átta mig á því. Ég þarf að fá rými til þess að skapa og flæða án þess að það sé verið að segja mér til. Mér líður best að fá að gera það sem ég vil og þegar ég vil, annars bara rotna ég,“ segir Gerða.
Hvað er skemmtilegast við vinnuna þína?
„Það sem er skemmtilegast við vinnuna mína er að það er ótrúlega gefandi að hjálpa öðrum konum að eflast og styrkjast, bæði líkamlega og andlega. Ég fæ að kynnast dásamlegum konum, sjá þær finna eigin kraft og blómstra. Þetta er það sem nærir mig sem þjálfara og gefur mér innblástur til þess að halda áfram að gera það sem ég elska.’’
Geturðu sagt frá heilsuferðunum sem þú hefur verið með?
„Ég hef verið svo heppinn að skipuleggja fjölbreyttar og dásamlegar heilsuferðir, frá nærandi umhverfi í Hvammsvík, yfir í afslappandi gistingu á uppáhalds Hótel Geysi. Ég fór sem í mína fyrstu lúxusferð erlendis í fyrra og get sagt með sanni að því er ég alls ekki hætt, það var alveg geggjuð ferð með frábærum hópi.
Einnig hef ég verið að halda alls konar viðburði, pop-up tíma og margt skemmtilegt sem heldur í mér neistanum, ég leyfi yfirleitt bara öllum hugmyndum að koma til mín og stekk á þær þegar ég finn að tilfinningin sé rétt.“
Hver er hugmyndin á bakvið In Shape stúdíó?
„Ég hef gengið með þann draum frá upphafi að opna eigið stúdíó og vissi alltaf að sá dagur myndi koma. Ég trúi því að hlutirnir komi til okkar á réttum tíma en ekki endilega þegar okkur langar. Þetta tækifæri kom þegar ég átti síst von á því og ég ákvað að treysta ferlinu. Stelpan úr Mosfellsdalnum búin að opna eigið stúdíó í Garðabænum, ég er stolt af mér. Lærdómurinn sem ég tek með mér er aldrei að gefa upp vonina, draumar geta ræst.
Áherslur í In Shape stúdíóinu eru að skapa nærandi samfélag kvenna sem læra af hver annarri, styrkjast og styðja hver aðra. Þetta sé ekki bara staður til að hreyfa sig heldur vettvangur þar sem konur finni innri kraftinn og blómstri saman og hafi gaman. Ég mun svo sjá til þess að svipa þær áfram í þjálfun eins og mér einni er lagið.
In Shape stúdíó opnar í dag, 18. ágúst. Hægt er að skoða námskeið og fleira sem verður í boði á næstu vikum á inshape.is og einnig er ég dugleg að setja inn á Instagram-síðuna mína,“ segir hún að lokum.