lau. 23. ágú. 2025 06:00
Ragnheiður fær nýfædda Klöru í hendurnar.
„Ég skipti ekki á bleyju held ég fyrstu tvær vikurnar“

Ragnheiður Júlíusdóttir og unnusti hennar, Arnar Snær Magnússon, eignuðust sitt fyrsta barn á árinu. Ragnheiður er 28 ára förðunarfræðingur og á í dag sex mánaða barn, Klöru, ásamt Arnari. Þau mynda því fallega fjölskyldu ásamt havanese-hundinum Kaíu.

Ragnheiður hefur verið óvinnufær í þrjú ár vegna langvarandi covid-einkenna en áður en hún veiktist var hún yfirburða handboltakona.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/05/11/mikil_streita_olli_miklum_veikindum/

Ragnheiður og Arnar hafa verið saman í 12 og hálft ár. Parið kynntist í gegnum handboltann þegar hún var 15 ára og hann var 18 ára. 

„Við erum bæði handboltafólk og kynntumst í gegnum hann. Ég var búin að sjá hann í framheimilinu og fannst hann sætur. Hann dæmdi leik hjá mér og sendi mér skilaboð eftir leikinn og „rest is history", segir Ragnheiður.

Arnar bað Ragnheiðar í desember árið 2023 eftir ellefu ára samband.

https://www.mbl.is/smartland/stars/2023/12/27/ragnheidur_og_arnar_trulofud_eftir_ellefu_ara_samba/

Hefur alltaf langað að eignast börn

Ragnheiður greinir frá því að hana hafi alltaf langað að eignast eigin börn. Hún segist hafa rætt barneignir með maka sínum og þau hafi ákveðið að prófa að reyna. 

„Okkur langaði að prófa að reyna og sjá hvað myndi gerast og það gekk í fyrsta. Kom okkur mjög á óvart en við erum mjög þakklát fyrir hvað þetta gekk hratt fyrir sig.“

 

Hvernig komstu að því að þú værir ólétt og hvernig leið þér ?

„Ég er mjög regluleg þegar það kemur að tíðahringnum, þannig um leið og ég átti að byrja á tíma mánaðarins keypti ég próf, því ég er svo óþolinmóð týpa. Mig langaði að vita strax hvort þetta hafi gengið eða ekki. Ég pissaði á próf og eftir um það bil mínútu var ekki komin nein lína þannig ég henti prófinu í ruslið.

Svo seinna um kvöldið var eitthvað sem sagði mér að kíkja aftur á prófið. Þá var komin lína. Þá fór ég auðvitað á Google til að athuga hvað það þýddi og þar stóð að öllum líkindum væri þetta jákvætt próf. Ég svaf ekkert um nóttina, var svo upptjúnuð út af þessu.

Arnar fór morguninn eftir strax í apótek og keypti Clear Blue-próf og það kom strax „Pregnant“ á skjáinn. Ég var bara í áfalli hreint út sagt, var mjög stressuð en mjög spennt líka,“ segir Ragnheiður.

 

Hún segist hafa komist að óléttunni ásamt Arnari. 

„Við komumst að óléttunni saman. Ég sýndi honum prófið sem ég henti fyrr um daginn og hann glotti þvílíkt og brosti og sagðist ætla að kaupa annað test strax næsta morgun. Við sáum línuna myndast saman og það var mjög sætt augnablik.“

„Vel haldið utan um óléttar konur hér á landi“

Ragnheiður segir meðgönguna hafa gengið mjög vel. Allir í kringum parið tóku fréttunum fagnandi og voru spenntir fyrir þeirra hönd.

„Foreldrar okkar tóku augljóslega fréttunum með mestum spenning og þurftu tíma til þess að ná sér niður. Okkur fannst svo gaman að segja frá og fá viðbrögð frá öllum,“ segir hún.

https://www.mbl.is/smartland/fjolskyldan/2024/07/12/ragnheidur_og_arnar_eiga_von_a_barni/

Breytingar á líkamanum og gott utanumhald komu henni mjög á óvart.

„Það kom mér mest á óvart var hvað líkaminn breytist á margan hátt. Ég er enn þá að venjast nýja líkamanum mínum en hann er magnaður. Það var ótrúlegt að finna hreyfingu og upplifa það að búa til manneskju. Ég verð líka að koma á framfæri hvað það er haldið vel utan um óléttar konur hér á landi, það kom mér alveg á óvart.“

 

Fékkstu einhver „cravings“?

„Já, ég var með mestu cravings í allt brauðmeti. Ég elskaði ostaslaufur, beyglur, grilluð brauð, subway og þess háttar. Svo fannst mér appelsínur, grape, kókómjólk og morgunkorn mjög gott alla meðgönguna. Eitthvað sem ég fékk mér aldrei áður,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður sagðist hafa viljað koma að skipulagi steypiboðsins sem haldið var fyrir hana.

„Ég skipulagði dagsetninguna og gestalistann sjálf. Vinkonur mínar og mamma skipulögðu restina. Ég vildi ekki surprise-partý því ég vildi vera sæt og fín og ráða hverjum ætti að bjóða sjálf. Ég mætti bara og allt var reddý. Það var fullkominn dagur sem ég mun aldrei gleyma.“

 

Missti 1,5L af blóði í fæðingunni

Ragnheiður var gangsett eftir 41 vikna og fimm daga meðgöngu. 

„Við mættum á sunnudagsmorgni klukkan 8 upp á kvennadeild og þá var ég komin með þrjá í útvíkkun. Ég tók fjórar gangsetningartöflur og svo var belglosun klukkan 18. Þá var ég sem betur fer komin með 4 í útvíkkun og um leið og belgurinn var sprengdur fossaði út legvatnið og hríðarnar komu um leið. Ég fór úr 4 í 10 í útvíkkun á tveimur tímum. Ég fékk mænudeyfingu og byrjaði að ýta um 22 leytið og hún kom í heiminn 22:46. Lítil fullkomin kerling,“ segir Ragnheiður. Hún segir fæðinguna hafa gengið hratt fyrir sig.

 

Hún hafi þó ekki gengið alveg hnökralaust fyrir sig.

„Ég lenti í klippi og hún var tekin með sogklukku. Einnig missti ég einn og hálfan lítra af blóði sem hafði slæm áhrif á mig eftir fæðinguna.“

Ragnheiður segist ekki hafa getað farið í gegnum fæðinguna án Arnars.

„Hann var frábær. Hann hjálpaði mér að anda í gegnum hríðarnar og komast í gegnum rembinginn, sem var mér erfiðastur. Ég var bara með hríðar í 20 mínútur áður en ég fékk mænudeyfingu og ég held ég hafi aldrei kreist hendina á einhverjum jafn fast og þessar 20 mínútur. Ég hefði ekki getað þetta án hans.“

„Tilfinningarússíbani að verða mamma“

Ragnheiður segir móðurhlutverkið dásamlegt.

„Mér finnst það dásamlegt, að horfa á sitt eigið barn er svo ótrúleg tilfinning, en móðurhlutverkið er auðvitað krefjandi líka. Þetta er ást sem maður hefur ekki upplifað áður, en með henni fylgir kvíði, allavega í mínu tilfelli. Það sem hefur komið mér á óvart er að tíminn líður 100x hraðar en áður.“

 

„Það er svo gaman að sjá hana stækka og ná hverjum áfanga en maður er líka leiður yfir því hvað hún er að stækka hratt. Ég reyni að minna mig á hverjum degi að njóta meðan hún er svona lítil, þótt hún gráti og allt sé yfirþyrmandi þá er þetta tími sem líður svo hratt.

Það hefur líka komið mér á óvart hvað það er í raun og veru bindandi að vera með barn. Ég hef allt aðra sýn á fólk sem á börn eftir að ég eignaðist mitt eigið,“ segir hún.

„Þetta er svo mikill tilfinningarússíbani, að verða mamma í fyrsta skipti.“

Brjóstagjöfin hefur gengið vel hjá Ragnheiði frá upphafi.

„Það kom strax í ljós eftir að hún fæddist að hún var með mikinn sogkraft og var farin að taka brjóstið nokkrum mínútum eftir að hún kom í heiminn. Ég var búin að mikla brjóstagjöfina mikið fyrir mér en ég er mjög heppin með hvað allt hefur gengið vel hvað hana varðar. Brjóstagjöfin er klárlega eitthvað sem ég mun sakna þegar hún hættir á brjósti,“ segir hún.

 

Hún lýsir því þó að fyrstu dagarnir eftir fæðinguna hafi verið erfiðir.

„Við vorum í þrjár nætur á spítalanum því ég var ekki í góðu ástandi líkamlega eftir fæðinguna, en það hafði mikil áhrif á mig að missa svona mikið blóð og líkaminn minn var bara búinn á því. Arnar sá um allt fyrstu dagana því ég gat varla staðið né gengið. Ég skipti ekki á bleyju held ég fyrstu tvær vikurnar.

Ég upplifði mikið samviskubit, var með mikinn sængurkvennagrátur og leið bara illa. Við sváfum eiginlega ekkert fyrstu þrjá daga eftir fæðinguna og það hafði ekki góð áhrif, allt er verra þegar maður sefur ekki. En um leið og ég fékk svefn og allt fór að komast í rútínu, þá varð allt betra,“ segir Ragnheiður.

 

„Maður er bara að kynnast nýju lífi, nýrri manneskju og á meðan er líkami manns að gróa. Ég hef alltaf verið mjög smeyk við fæðingar, en eftir á að hyggja þá finnst mér enginn tala um þessa daga eftir fæðingu. Ég var alla meðgönguna að undirbúa mig undir fæðinguna en ekki það sem kom eftir á. Þessir fyrstu dagar voru miklu erfiðari en fæðingin, allavega í mínu tilfelli.“ segir Ragnheiður.

Hún lýsir því að henni leið eins og að enginn hafi undirbúið sig fyrir fyrstu vikurnar með nýfætt barn og þar að auki hafi hún ekki heyrt neinn tala um þann tíma sem getur verið erfiður þar sem að mikið gerist í líkamanum eftir fæðingu.

„Í þessa þrjá daga sem við vorum uppi á spítala lærðum við svo mikið, varðandi brjóstagjöf og alls konar annað og það hjálpaði okkur mikið og vorum við öruggari þegar heim var farið,“ bætir hún við.“

Hvaða ráð myndirðu gefa Ragnheiði sem var að komast að því að hún væri ólétt í dag?

„Að hafa ekki áhyggjur því það mun allt fara vel,“ segir Ragnheiður að lokum.

 

til baka