Berglind Svavarsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu hvort gera þurfi kaupmála um skiptingu arfs til barna og barnabarna hennar látist hún á undan eiginmanni sínum, sem er ekki faðir barnanna.
Sæl, ég giftist núverandi eiginmanni mínum 2011. Hann á ekki börn og er nokkrum árum yngri en ég. Ég á tvö uppkomin börn frá fyrra hjónabandi og fjögur barnabörn. Við hjónin erum sammála um það að börnin mín og barnabörn eigi að erfa okkur. Ef hann situr að óskiptu búi ef ég fell frá fyrr, er þá best að gera kaupmála? Hver erfir hann? Eru það börnin mín eða ættingjar hans? Hvað er best að gera í stöðunni?
Með fyrirfram þökk, JR.
Sæl JR,
Samkvæmt erfðalögum eru meðal lögerfingja börn arfleifanda og aðrir niðjar auk maka. Samkvæmt þessu eru þínir erfingjar því maðurinn þinn og börnin þín en þú ert eini lögerfingi mannsins. Ef það er ætlun ykkar að börn þín njóti arfs eftir ykkur bæði þá verður maðurinn að kveða á um slíkt með erfðaskrá af því börnin eru ekki erfingjar hans að lögum. Varðandi leyfi til setu í óskiptu búi þá verða börnin þín annaðhvort að veita samþykki sitt til þess fallir þú frá á undan honum eða að þið gerið erfðaskrá þar sem mælt er fyrir um rétt til setu í óskiptu búi.
Með bestu kveðju,
Berglind Svavarsdóttir lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Berglindi eða öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.