Það getur verið erfitt að vita hvert maður stefnir í lífinu beint eftir útskrift úr framhaldsskóla. Því bregða margir ungir Íslendingar á það ráð að fara í lýðháskóla.
Þorbjörg Þóroddsdóttir var ein þeirra sem hafði ekki hugmynd um hvað hana langaði að gera eftir útskrift og hélt út á vit ævintýranna.
„Mig langaði að prófa eitthvað allt annað en ég hafði verið að gera. Mig langaði að fara eitthvert í burtu frá litlu Akureyri, prófa mig áfram í listinni, læra smá dönsku, vera ein í útlöndum og þurfa að vera sjálfstæðari,“ segir Þorbjörg sem fór í Vestjyllands Højskole haustið 2023.
„Ég rambaði eiginlega óvart á hann þegar ég setti skrif inn sem áhugamál á leitarvél hojskolerne.dk. Mér leist vel á námsefnið og að það væri vel tekið á móti lítið-dönskumælandi nemendum, svo ég ákvað að velja hann.“
Lýðháskóla-búbblan
Þorbjörg segir „lýðháskóla-búbbluna“, fyrirbæri sem flestir sem farið hafa í lýðháskóla þekkja vel, vera það sem standi upp úr eftir dvölina.
„Það verður til einhvers konar búbbla þegar maður er í lýðháskóla“, útskýrir Þorbjörg. „Og allt fólkið í skólanum er með manni í búbblunni og allir vita að búbblan mun springa í desember, eða maí. Þetta er svo einstök tilfinning og það varð til hjá mér þessi stemning að reyna að skapa eins mikið og ég gæti.
Það voru myndlistarsýningar í hverri viku hjá myndlistarkrökkunum og danssýningar hjá danskrökkunum. Ég og vinkonur mínar í tónlistaráfanganum stofnuðum hljómsveit og spiluðum nokkrum sinnum yfir árið. Ég málaði ljóð á stiga í ritlistaráfanganum og við földum lista í lyftunni og í búningageymslunni. Þessi orka er svo ótrúlega drífandi - það vilja allir vera þarna, það vilja allir skapa og það vilja allir sjá hvað þú ert að skapa. Ég hafði aldrei verið í tónlist af neinu viti áður en ég samdi tónlist, eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að gera áður.
Ég er núna í sviðshöfundanámi í Listaháskólanum, eitthvað sem ég hefði líklega ekki farið í ef ekki hefði verið fyrir lýðháskólakennara að skipa mér að sækja um í listnám, og ég hugsa svo oft um það sem ég lærði af þessari búbblu, þessari smitandi orku, þessari sköpunargleði. Þetta var einhvers konar staðfesting á því að það væri framtíð sem listamaður.“
Þar að auki hafi vinir sem hún á enn í dag, daglegt kvöldverðarljóð og fyrirlestur textílkennara um að menn hefðu ekki komist út í geim ef ekki hefði verið fyrir prjónakonur, staðið upp úr eftir dvölina í Vestjyllands.
Þetta fólk er síreykjandi!
Var eitthvað sem kom á óvart?
„Það sem kom mest á óvart við skólann var hversu rólegir Danirnir voru! Kannski dró Vestjyllands bara að sér rólegustu Danina, en þeir voru allir að sækja um vikum fyrir skólabyrjun.
Það kom mér á óvart hversu langt skólinn gekk í því að vera sjálfbær og notaði hvern einasta hluta af því sem þar var ræktað.
Svo kom mér á óvart, þótt ég hefði nú alveg heimsótt Kaupmannahöfn, hversu mikið Danir reykja. Þetta fólk er síreykjandi. Og þau vita ekkert um íslenska sögu. Aldrei hef ég verið, og aldrei mun ég verða, jafn mikill Íslandselskari og fyrsta desember í dönskum lýðháskóla að neyða félaga mína til þess að syngja íslenska þjóðsönginn.“
Áttu einhverja skemmtilega sögu?
„Maður er náttúrulega með þúsund skemmtilegar sögur. Eina vikuna urðum við Julie, vinkona mín, helteknar af því að lita allt blátt. Við stálum matarlit úr eldhúsinu og lituðum allt sem við komum klónum yfir - handsápuna á baðherbergjunum, mjólkina í kaffið. Við vorum ótrúlega stoltar af því að vera „cerulean bandits“. Ég held að nákvæmlega engum öðrum hafi fundist það fyndið.
Einhvern tímann lék allur skólinn njósnaraleik í heilan dagspart, þar sem við rúlluðum okkur um og földum okkur og þóttumst halda á byssum þegar við litum fyrir horn. Svo voru haldnar gangakeppnir þar sem hver gangur setti upp þema og lét fólk keppa. Minn gangur tapaði í hverri einustu keppni nema þegar keppt var um hver gat drukkið mest. Og síðast en ekki síst, að fara í snjóboltastríð þar sem engu skipti hvort hermenn væru innan- eða utandyra.“