þri. 19. ágú. 2025 08:02
Elísa Þóreyjardóttir fór í lýðháskólann Roskilde Festival Højskole beint eftir útskrift.
Íslendingar „eins og Chihuahua-hundur bundinn við staur að ybba gogg“

Að fara í lýðháskóla til Danmerkur er geysivinsælt meðal ungra Íslendinga, sérstaklega þeirra sem vita ekki hvað þá langar að gera eftir menntaskóla.

Elísa Þóreyjardóttir fór í lýðháskólann Roskilde Festival Højskole beint eftir útskrift.

„Ég ákvað að fara eftir menntaskóla af því ég fann að ég var alveg smá búin á því,“ segir Elísa. „Ég þrífst í skólaumhverfi en ég var ekki alveg tilbúin fyrir skuldbindinguna sem fylgir því að fara í háskóla. Svo finnst mér bara svo gaman að kynnast nýju fólki og öðrum menningum!"

Hvers vegna Roskilde Festival Højskole?

„Nafnið greip auðvitað athygli mína en skólinn er rekinn af Roskilde Festival, sem er vel þekkt tónlistarhátíð. Við nemendurnir fengum fría miða og vorum sjálfboðaliðar á hátíðinni sjálfri."

Hvað stendur upp úr eftir dvölina?

„Allt frábæra fólkið og elsku Roskilde. Þetta er svo yndislegur bær og Musicon, hverfið sem skólinn er í, er svo frábært. Þar búa eiginlega bara listamenn og margir kennararnir líka.

Kennararnir í skólanum voru bara bestu vinir manns, djömmuðu með okkur, grétu þegar við fórum og kenndu okkur svo margt.

Þar sem skólinn er á vegum Roskilde Festival var okkur kennt að halda viðburði. Við settum upp listahátíð í Huset í Kaupmannahöfn sem stóð yfir í nokkra daga með listaverkum, smiðjum og fyrirlestrum frá alls konar fólki. Það var ótrúlega gaman.

 

Ég sótti svo um í myndlist í Listaháskólanum og ég hefði aldrei komist inn hefði ég ekki farið á myndlistar- og hönnunarbraut í RoFH. Ég skulda kennurunum og skólanum fyrir þann greiða.“

Var eitthvað sem kom þér á óvart?

„Það kom mér á óvart hvað sumir Danir eru bara alls ekki góðir í ensku og ég er ekki að reyna að vera eitthvað leiðinleg. Ég áttaði mig líka á að Ísland er með einhvern einhliða derring við Danmörku. Þau pæla ekkert í okkur og við erum bara smá eins og einhver chihuahua-hundur bundin við staur að ybba gogg. En ég hafði samt mjög gaman að því að vera svoleiðis, það er eiginlega ótrúlegt að ég hafi eignast vini fyrir lífstíð þarna.“

 

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr skólanum?

„Við vorum send í nokkra daga puttalingaferð af því það þurfti að nýta samkomuherbergið okkar í einhverja auglýsingu fyrir einhvern stól minnir mig. Það var vel skrítið og skrautlegt.

Við vorum pikkföst á einhverjum Burger King í nokkra klukkutíma, lengst úti í rassgati, og ég þurfti að þykjast gráta á meðan strákarnir suðuðu í einhverjum kalli að skutla okkur. Það virkaði og við fengum að gista í einhverjum „efterskole“ [heimavistarskóla fyrir krakka á unglingastigi] í Lollandi og sungum Wonderwall fyrir einhvern 100 manna hóp af unglingum.“

til baka