„Við erum ekkert á leið til Íslands aftur,“ segja þau Birgir Orri Ásgrímsson og Álfrún Freyja Heiðarsdóttir. Þau hafa verið kærustupar í fimm ár og búa nú saman í Osló ásamt systur Birgis, Hebu, og hundinum þeirra Melbu.
Osló hafði aldrei verið staður sem þau sáu fyrir sér að búa á fyrr en Álfrún flutti þangað árið 2023 til að vera aupair fyrir íslenska fjölskyldu sem hafði búið víða.
„Fyrst þegar ég vissi að ég væri að fara til Osló þá var ég ekkert geðveikt spennt fyrir því,” viðurkennir Álfrún. Birgir sem var duglegur að heimsækja kærustuna segist hafa kolfallið fyrir borginni sem Álfrún segir vanmetna. Síðasta haust flutti hann út til hennar.
Hvernig mynduð þið lýsa Osló?
„Ég segi alltaf að Osló sé svona eins og ef Akureyri væri stórborg,“ segir Birgir en þau Álfrún eru bæði Akureyringar, fædd árið 2004. „Þetta er frekar lítil borg en það er allt þarna. Það eru geggjaðar almenningssamgöngur, það er allt hreint og þú getur labbað nánast allt.” Þá sé veðrið mjög gott á sumrin. „En það kemur ansi mikill vetur líka,” segir Birgir,
„en hann er styttri en á Íslandi.” Álfrún segir hitastigið hafa farið niður í mínus 16 gráður þegar kaldast var í vetur.
Nágrannar kóngsins
Norðmennirnir segja parið að hafi komið á óvart. „Norðmenn eru félagslyndari en fólk heldur,” segir Álfrún. „Fólk heldur að Norðmenn séu svaka lokaðir en þeir eru mjög skemmtilegir.”
Birgir, Álfrún, Heba og tíbatski terríerinn Melba búa í fallegri íbúð í hverfinu Frogner, sem þau segja uppáhaldshverfi sitt í borginni. „Það er nálægt miðbænum og er sögulega skemmtilegt hverfi,“ segir Birgir. „Svo erum við nágrannar kóngsins,” bætir Álfrún við. „Við búum rétt hjá höllinni.”
Annað hverfi sem er í miklu uppáhaldi hjá Álfrúnu er Grünerløkka. „Birgir er ekki jafn hrifinn, en það er svo gaman í Grünerløkka. Þar eru rosalega skemmtilegir markaðir og matarmarkaður.” Birgir segir gaman að heimsækja önnur hverfi en að þeim líði vel í Frogner.
Eldhús fyrir hestvagna
Íbúðin þeirra er í raun keramíkstúdíó sem var breytt í íbúð fyrir ekki svo löngu. Hún er því afar sértök og smart með langa þrönga ganga sem aðskilja hvert rými. „Húsið var byggt í kringum 1900 og það er skemmtilegt að segja frá því að eldhúsglugginn okkar var innkeyrsla fyrir hestvagna. Upphaflega var íbúðin geymsla fyrir hestvagna, svo varð þetta keramíkstúdíó og núna búum við hér,” segir Birgir.
Þegar kom að því að flytja inn segja þau gluggann hafa komið að góðum notum. Þá hafi þau ferjað húsgögn inn um gluggann og komist hjá því að koma þeim í gegnum forstofu og langa ganga.
Hvað eruð þið að gera þarna úti?
„Ég er vinnandi í augnablikinu en fer í undirbúningsnám fyrir fatahönnun í fjarnámi í haust,” segir Álfrún sem er vaktstjóri í fataversluninni H&M. „Og ég er að læra viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri, var að klára fyrsta árið núna. Ég er búin að vera í fjarnámi en ætla í skiptinám á næsta ári í Osló í Oslo Metropolitan. Svo erum við nýbúin að fá okkur hund svo við erum mikið í göngutúrum með hana, hún er fjögurra ára,” segir Birgir sem vinnur á bar samhliða náminu. Þau segja Osló mikla hundaborg, Melba megi koma með þeim nánast hvert sem er.
„Svo erum við dugleg að kíkja út eftir vinnu, sitja í sólinni og fá okkur síðdegisdrykk, aperol eða bjór,” segir Birgir.
Hvað er ómissandi að sjá í Osló?
„Ég myndi alltaf mæla með því að taka góða göngu til að sjá yfir borgina og sjá hvað hún er græn. Mér finnst alltaf jafn gaman að sjá trén og eyjarnar í kring. Ég held að það sé svona mest ómissandi, náttúran inni í borginni. Við tökum oft neðanjarðarlestina upp að Holmenkollen sem er skíðastökkpallurinn og þar eru virkilega skemmtilegar gönguleiðir og skemmtilegur staður til að fá sér fá sér að borða og horfa yfir borgina,” segir Birgir.
Þau segjast vera um tíu mínútur að fara að heiman og upp að stökkpallinum. „Það er það sem mér finnst eitt það besta við Osló, sem er svo frábrugðið Íslandi, samgöngurnar. Það er alveg magnað samgöngukerfi hérna og ég fæ góðan stúdentaafslátt þó að ég sé ekki einu sinni í skóla í Noregi,” segir Birgir.
Hvernig væri ykkar draumadagur?
„Draumadagurinn væri að við værum bæði annaðhvort að vinna seint eða í fríi. Vöknum snemma, Álfrún gerir morgunmat af því ég kann ekki að elda. Við sitjum með voffa, tökum kaffibolla, göngutúr og erum bara. Förum mögulega á ströndina,“ segir Birgir. „Og svo í drykk seinni partinn uppi á barinn hans Birgis,“ bætir Álfrún við.
Parið er hæst ánægt með lífið í Osló og sér ekki fram á að flytja heim á næstunni. „Ég get eiginlega ekki hætt að tala um hvað ég er ánægður. Ég kemst eiginlega bara ekki yfir að við búum bara hérna,” segir Birgir að lokum.