Stjórnir Kviku banka og Arion banka hafa undirritað viljayfirlýsingu um að hefja formlegar samrunaviðræður milli félaganna. Kvika hefur jafnframt hafnað beiðni Íslandsbanka um að hefja samrunaviðræður.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir að viðskiptagengið í væntum samruna verði 19,17 krónur á hvern hlut í Kviku og 174,5 krónur á hlut í Arion banka. Gangi samruninn eftir munu hluthafar Kviku eignast 485 milljónir nýrra hluta í sameinuðu félagi, sem jafngildir 26% hlutafjár.
„Búist er við að viðræðurnar muni fara fram á næstu vikum og verður nánar upplýst um framvindu þegar ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans,“ segir í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir sanngjarnri leiðréttingu skiptihlutfalla komi til úthlutunar af fjármunum félaganna til hluthafa fram til þess dags er samruninn tæki gildi.
Hafna beiðni Íslandsbanka
Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að bankinn hafi sent stjórn Kviku banka uppfært erindi, eftir lokun markaða föstudaginn 4.júlí, þar sem bankinn ítrekaði ósk sína um samrunaviðræður.
„Stjórn Kviku hefur nú hafnað beiðni Íslandsbanka,“ segir í tilkynningunni.