sun. 6. júlí 2025 18:00
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Sér fyrir endann á harðri vaxtastefnu

Seðlabankar í helstu iðnríkjum hafa hækkað stýrivexti hratt síðustu tvö árin til að ná niður verðbólgu. Nú sér þó fyrir endann á þeirri hertu vaxtastefnu: búist er við að bandaríski seðlabankinn (Fed) lækki stýrivexti lítillega innan skamms og að Evrópski seðlabankinn hafi svigrúm til smárra vaxtalækkana. Seðlabanki Englands hefur einnig hafið varfærnar vaxtalækkanir og lækkaði vexti úr 4,5% í 4,25% í maí 2025.

Vaxtahorfur eru að sögn Jóns Bjarka Bentssonar aðalhagfræðings Íslandsbanka óljósar, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem hann segir að óvissan sé meiri en áður. „Menn eru aftur farnir að verðleggja allnokkra vaxtalækkun á næstu fjórðungum og yfirvöld eru farin að gefa undir fótinn með að slíkt sé mögulegt.“

Svipaða sögu sé að segja af Bretlandi. Þar glími menn við veikt hagkerfi á sama tíma og þrálát verðbólga herji á heimilin. „Stýrivextir eru nú rétt yfir 4% í bæði Bandaríkjunum og Bretlandi, sem er tvöfalt hærra en í Evrópu.“

Vaxtahorfur eru misjafnar eftir svæðum, segir Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku. Í Bretlandi sé einhugur innan peningastefnunefndar Englandsbanka um frekari vaxtalækkanir, þótt nefndarmenn hafi ólíkar skoðanir á hversu hratt sé hægt að lækka vexti. „Launahækkanir hafa verið hraðari en samræmist verðbólgumarkmiðum – því verður farið varlega, en ég á samt von á tveimur vaxtalækkunum til viðbótar til áramóta.“

Á evrusvæðinu hafa vextir verið lækkaðir hraðar, og því sé hugsanlegt að vaxtalækkunarferlið sé komið á endastöð. „Við gætum í mesta lagi séð eina lækkun í viðbót í haust ef efnahagsumsvif í sumar verða í veikari kantinum, en það er líka mögulegt að vaxtalækkunarferlið sé nær endalokum.“

Í Bandaríkjunum ríki óvissa og deildar meiningar innan peningastefnunefndarinnar. „Væntingakönnun meðal nefndarmanna bendir til þess að helmingurinn vilji lækka vexti meira í ár, en hinn helmingurinn vill frekar bíða og sjá hvaða áhrif tollastríðið hefur á verðbólgu og eftirspurn.“

Lesa má umfjöllunina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.

til baka